„Kannske er ég þreyttur vegna vandamálsins í Árskógum“

„Kannske fór þetta Árskógamál með mig. Kannske verð ég að …
„Kannske fór þetta Árskógamál með mig. Kannske verð ég að viðurkenna að ég sé orðinn of gamall og að yngra fólk og betra, ráði betur við formennskuna,“ segir Ellert B. Schram, fráfarandi formaður FEB. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Ellert B. Schram hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér áfram sem formaður Félags eldri borgara og nágrenni (FEB). Þetta kemur fram í nýjum félagstíðindum FEB.

„Kannske er ég þreyttur vegna vandamálsins í Árskógum, kannske er ég ekki lengur nógu góður formaður. Kannske fór þetta Árskógamál með mig. Kannske verð ég að viðurkenna að ég sé orðinn of gamall og að yngra fólk og betra ráði betur við formennskuna,“ segir Ellert meðal annars í kveðjuávarpi sínu, en hann hefur setið í stjórn félagsins síðustu fimm ár, þar af þrjú sem formaður. 

Gjaldþrot blasti við FEB síðasta haust þegar í ljós kom að kostnaður við íbúðir sem félagið lét byggja í Árskógum var 400 milljónum meiri en gert hafði verið ráð fyrir. Nokkrir kaupendur hófu málsókn en samþykktu að lokum að draga máls­höfðun sína til baka og ganga að því sam­komu­lagi sem FEB hafði áður boðið þeim sem höfðuðu mál gegn fé­lag­inu. 

„En þetta hefur verið sögulegur og skemmtilegur tími, hitt marga sem ég ella hefði aldrei hitt, notið þess að sitja skemmtilega fundi og uppákomur og hlegið með þeim,“ segir Ellert í kveðjuskyni.

mbl.is