Átta starfsmenn Háteigsskóla í einangrun

Nemendur í Háteigsskóla.
Nemendur í Háteigsskóla. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kórónuveirusmitum hefur fjölgað í Háteigsskóla en skólanum var lokað síðastliðinn þriðjudag. Nú eru átta starfsmenn skólans smitaðir og í einangrun. Í gær voru allir nemendur þriðja bekkjar sendir í sóttkví þar sem umsjónarkennari greindist með kórónuveirusmit. Að sögn Arndísar Steinþórsdóttur, skólastjóra Háteigsskóla, eru nú um 150 nemendur skólans komnir í sóttkví og 29 starfsmenn.

Arndís segir að öll þessi mál hafi verið unnin í nánu samstarfi við smitsjúkdómalækni og rakningarteymi almannavarna. Allt kapp hafi verið lagt á hröð viðbrögð við að upplýsa foreldra um stöðu mála.

Háteigsskóli verður lokaður í fjórtán daga og nemendur því allir heima. Arndís segir að þess vegna hafi verið ákveðið að bregðast hratt við þeirri stöðu að nemendur voru án kennslu. Kennarar hafa skipulagt nám allra nemenda skólans í fjarkennslu.

„Þar koma tæknin og möguleikar hennar sterk inn,“ segir Arndís. „Eitt af því sem nemendum býðst er að hitta kennara sína í mynd-netspjalli á hverjum degi. Það er börnunum dýrmætt að geta talað við kennara sinn um námið og ekki síður það sem þeim liggur á hjarta þessa dagana,“ segir Arndís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert