Háteigsskóla lokað í tvær vikur

Skólinn er ekki að fara í allsherjarsóttkví heldur er um …
Skólinn er ekki að fara í allsherjarsóttkví heldur er um einhvers konar kælingu að ræða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Háteigsskóli verður lokaður næstu tvær vikurnar, en skólastjórnendur tóku þá ákvörðun í samráði við almannavarnir og sóttvarnalækni í dag eftir að tveir kennarar og einn starfsmaður félagsmiðstöðvar skólans greindust með kórónuveiruna. Þetta staðfestir Arndís Steinþórsdóttir, skólastjóri Háteigsskóla, í samtali við mbl.is.

„Þetta er gert í þeim tilgangi að kæla umhverfið og stoppa smitið sem var að dreifa sér. Það fer hins vegar enginn í sóttkví,“ segir Arndís og á þar við starfsmenn og nemendur skólans sem ekki höfðu verið sendir í sóttkví nú þegar vegna umgengni við smituðu einstaklingana. Um 80 nemendur skólans og á annan tug starfsmanna eru í sóttkví og verða næstu tvær vikurnar. Það bætist hins vegar enginn í þann hóp við lokun skólans. „Skólinn er ekki að fara í allsherjarsóttkví,“ áréttar Arndís.

Hvað kennslu varðar á eftir að taka ákvörðun um hvernig þeim málum verður háttað. „Við förum í það strax á morgun að setja okkur í stellingar við að mæta nemendum í annars óvenjulegum aðstæðum. Við erum á það sérstökum tímum að nú er það enn frekar samtalið og samveran sem skiptir höfuðmáli þótt það sé gott líka að skrifa og lesa og allt það. Nú bara kælum við umhverfið, förum aðeins í burtu og fjarlægjumst hvert annað. Svo vonum við að sólin fari að koma upp í þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert