„Þetta sumar verður ekki upp á marga fiska“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, segir að lakari sviðsmyndir um áhrif af útbreiðslu kórónuveirunnar sem uppi hafi verið séu nú að raungerast og ljóst að áhrifin á ferðaþjónustuna séu meiri en vonað hafi verið í fyrstu.

Spurð hvort ferðaþjónustusumarið sé runnið út í sandinn segir Þórdís að tíminn verði að leiða það í ljós. „Það er alveg ljóst að apríl er að renna upp. Bæði lönd innan Evrópu og utan eru að setja verulegar ferðatakmarkanir og jafnvel útgöngubann næstu vikur. Við vitum ekki hvað tekur við þá,“ segir hún og bætir við: „Því miður held ég að sé óhætt að segja að þetta sumar verður ekki upp á marga fiska.“

Í dag kynnti ríkisstjórnin aðgerðir sínar til að bregðast við efnahagslegu áfalli af völdum útbreiðslu kórónuveirunnar og segir Þórdís að þær taki meðal annars mið af því að lakari sviðsmyndir séu að raungerast hvað varði þetta sumar. Þannig sé horft til þess með frestun gjalddaga að t.d. fyrirtæki í ferðaþjónustu geti náð sér á strik næsta sumar og greitt gjöldin þá.

Fram hefur komið, meðal annars í greiningum bankanna, að mörg ferðaþjónustufyrirtæki hafi verið að berjast í bökkum undanfarin misseri og jafnvel síðustu ár. Spurð hvort þessar aðstæður muni leiða til fjöldagjaldþrota í greininni segir Þórdís að aðgerðirnar eigi einmitt að koma í veg fyrir slíkt. „Þau fyrirtæki sem eiga möguleika á að ná sér og komast í gegnum þetta eiga að geta gert það með öllum þeim stuðningi sem við erum að veita.“ Segist hún ekki þora að segja til um að hve miklu leyti þurfi að koma til endurskipulagning innan greinarinnar og hvernig sú endurskipulagning kunni að vera mismunandi eftir geirum ferðaþjónustunnar.

Segir Þórdís að ljóst sé að ferðaþjónusta sé mannaflsfrek grein og hér á landi séu greidd há laun sem geri samkeppni við önnur lönd erfiða. Þá sé framleiðni ekki nægjanleg í greininni. Hún segist samt ekki hafa áhyggjur af ferðaþjónustu til lengri tíma. „Við munum þurfa að fara í gegnum erfiða tíma, en áfangastaðurinn Ísland er ekki að fara neitt,“ segir hún.

Þá sé markmiðið ekki aðeins að koma fyrirtækjum yfir erfiðasta hjallann í ár. Markmiðið sé að sækja fram í kjölfarið. „Við ætlum að vera klár, ætlum að vera fremst að sækja þá ferðamenn sem fara í ferðalag þegar þar að kemur.“

Ljóst er að kórónuveiran hefur áhrif á hagkerfi um allan heim með tilheyrandi niðursveiflu. Spurð hvort Ísland, sem dýr áfangastaður með hátt verðlag, sé líklegt til að ná sér síðar á skrið en aðrir áfangastaðir segist Þórdís ekki trúa því. „Ég efast ekki um að það verða nægjanlega margir ferðamenn sem vilja ferðast og horfa til Íslands og náttúrunnar hér með dreifðar byggðir, öryggi og náttúru til að geta verið hér með sterka atvinnugrein sem ferðaþjónustan verður inn í framtíðina.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert