Krakkar og kennarar læra saman

Arndís Steinþórsdóttir, skólastjóri Háteigsskóla, þurfti ásamt samstarfsfólki sínu að hugsa …
Arndís Steinþórsdóttir, skólastjóri Háteigsskóla, þurfti ásamt samstarfsfólki sínu að hugsa skólastarfið upp á nýtt þegar skólanum var lokað vegna kórónuveirunnar.

Starfsfólk Háteigsskóla þurfti líkt og starfsfólk annarra skóla í landinu að bregðast skjótt við breyttu ástandi í þjóðfélaginu þegar ákveðið var að breyta fyrirkomulagi kennslu vegna kórónuveirunnar. Áskorunin var sennilega meiri sem Arndís Steinþórsdóttir, skólastjóri Háteigsskóla, stóð frammi fyrir ásamt starfsliði skólans þar sem þrír starfsmenn greindust með COVID-19 smit og ákveðið var  að loka skólanum. Í kjölfar þess var tekin ákvörðun um að taka upp fjarkennslu.

Að sögn Arndísar er hlutverk kennara mikilvægt við að takast á við það ástand sem nú er í þjóðfélaginu og að sinna börnum á sem bestan hátt. Það skipti miklu máli. „Skólinn er stór hluti af lífi barna og það sem við erum að gera í Háteigsskóla er ekki flókið tæknilega séð, við erum að hitta nemendur okkar í mynd og reynum að gera þetta einfalt og þægilegt.“

Arndís segir að skólinn njóti þeirrar gæfu að verkefnastjóri  skólans í upplýsingatækni, Guðfinna Hákonardóttir, eigi afar auðvelt með að fá fólk í lið með sér og því hafi allir tekið þátt og átt auðvelt með að koma sér inn í málin. Skipti þar engu á hvaða aldri starfsfólkið er – allir tóku þátt. Kennarahópurinn hafi verið fljótur að tileinka sér ný vinnubrögð og tækni og þannig sýnt og sannað hæfni og fagmennsku sína.

Skólar og kennarar skipta miklu máli þegar eitthvað bjátar á …
Skólar og kennarar skipta miklu máli þegar eitthvað bjátar á í samfélaginu. mbl.is/Hari

Hver umsjónarkennari kennir núna nemendum sínum í gegnum Google Meet og þar hittist nemendahópurinn á hverjum degi. Þar er farið yfir verkefni dagsins og eins spjallað um lífið og tilveruna á tímum kórónuveirunnar.

Mikilvægt að halda uppi skólastarfi

Hún segir strax hafa komið í ljós að nemendur geti mun meira en maður gæti haldið og þau hafi afar gaman af því að láta ljós sitt skína í rafrænni kennslustofu.

Arndís segir mikilvægt að börnin hitti kennara sinn og geti spjallað við hann, ekki bara um námið heldur einnig almennt. Rannsóknir sýni að á óvissu- og uppnámstímum í þjóðfélögum rói það börn að heyra rödd kennara síns. Það hefur alveg sýnt sig, segir Arndís. „Það er mikilvægt að halda uppi skólastarfi á tímum faraldursins, það skiptir máli fyrir börnin að geta farið í skólann og það skiptir máli fyrir samfélagið að skólastarf grunnskólanna geti haldið áfram þótt það sé með ýmsum og ólíkum hætti, rafrænt eða í hefðbundinni skólastofu. Þarna geta kennarar líka sýnt og sannað mikilvægi kennarastarfsins og hve dýrmætt það er samfélaginu. Ef vel tekst til held ég að virðing fyrir starfi kennara muni aukast í kjölfarið,“ segir Arndís.

Arndís segir að það sé hennar skoðun að ákveðinn hluti nemenda hafi ekki fengið að sýna hvað í honum býr þar sem hann fær verkefni sem eru undir hans getu. „Í aðstæðum sem nú eru kemur berlega í ljós að þessir nemendur blómstra. Tæknin er líka miklu sjálfsagðri hlutur í lífi nemenda okkar en við áttuðum okkur á og það gerir þeim líka auðveldara fyrir að bregðast við þessum breyttu aðstæðum. Við eigum að sættast við tæknina og vinna með henni,“ segir Arndís.

Hjá Háteigsskóla er unnið með þær námsáætlanir sem voru í gildi áður en kórónuveiran setti skólahald á hliðina en einnig er unnið með ástandið eins og það er. Nemendur lesa bækur og skrifa ritgerðir eins og þau hefðu gert í eðlilegu árferði.

„Við gætum þess að kjarnagreinarnar séu á réttu róli en það er ekki síður þessi snerting – að hitta samnemendur og kennara – í gegnum fjarkennslubúnað eins og Google Meet sem er svo mikilvæg,“ segir Arndís. „Kennsluefnið núna er ekki síður lífsleikni, tæknilæsi, seigla og sveigjanleiki. Og nú eru bæði krakkarnir og kennararnir að læra þetta saman.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert