„Færri og færri sem verða ríkari og ríkari“

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segist trúa því að eftir faraldur sem þennan muni hugarfar og heimsmynd breytast. Segir hann að samfélög ráði ekki við heimsfaraldra sem þessa ef bili milli hinna ríku og fátæku sé leyft að aukast.

Lýsti Sigurður Ingi í þættinum Sprengisandi í dag að í heiminum væru „alltaf að verða færri og færri sem verða ríkari og ríkari“ og að skipting gæða heimsins væri að verða ójafnari. Sagði hann þetta reyndar öfugt við stöðuna hér á landi, en þetta þyrfti að breytast eftir faraldur sem þennan.

Sagði Sigurður Ingi að til að ráða við heimsfaraldur sem kórónuveiruna þyrfti að ganga í öfuga átt. Ef það væri ekki gert myndu þjóðir ekki ráða við slíka óværu í veikum samfélögum með veika innviði og fátækt. Sagði hann að víða þyldi fólk nánast enga breytingu á tekjum og þyrfti þá nánast að lifa á loftinu.

Var Sigurður Ingi jafnframt spurður út í ákvörðun Bláa lónsins að segja upp starfsfólki og setja 400 manns í hlutastarf, í tengslum við aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að mæta fyrirtækjum sem lenda í erfiðleikum, á sama tíma og fyrirtækið hefði greitt eigendum sínum marga milljarða í arðgreiðslur síðustu ár.

Sagðist hann hafa fullkominn skilning á þeirri gagnrýni sem hefði komið fram á fyrirtækið og ákvörðun þess. Á tímum sem þessum yrðu allir að sýna samfélagslega ábyrgð og fyrirtæki sem ekki þyrftu að nýta sér aðgerðir stjórnvalda, en gætu það þó, ættu að sýna ábyrgð og sleppa því svo samfélagið kæmist hraðar í gegnum efnahagslegar afleiðingar faraldursins.

Sagði Sigurður að faraldur sem þessi myndi breyta hugafari fólks. Fyrirtæki sem sýndu ekki samfélagslega ábyrgð fengju ekkert klapp á bakið frá almenningi eða „goodwill“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert