Ekkert nema kuldi í kortunum

Kort/Veðurstofa Íslands

Út vikuna er ekkert nema kuldi í kortunum  frost á öllu landinu. „Í ofanálag verður vindur stundum hvass og áður en vikan er á enda eru líkur á að snjóað hafi í öllum landshlutum,“ segir veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

„Í dag er útlit fyrir suðvestan strekking eða allhvassan vind með rigningu sem einkum verður bundin við vesturhelming landsins. Það verður milt í veðri og hiti yfirleitt á bilinu 3 til 8 stig, gæti skriðið í rétt rúmlega 10 stig á Austfjörðum og Suðausturlandi.

Í kvöld dregur úr úrkomu og kólnar. Á morgun verður stífur vindur úr vestri, sums staðar hvassviðri. Með fylgja él, en austanlands hangir þurrt. Það heldur áfram að kólna og frost allt að 5 stig síðdegis. Undir kvöld snýst vindur til norðlægrar áttar og snjókomubakki kemur inn á norðanvert landið, en þá má búast við stöku éljum syðra,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurspáin fyrir næstu daga

Suðvestan 10-18 m/s og rigning, einkum á vestanverðu landinu. Hiti víða 3 til 8 stig. Minnkandi úrkoma og kólnar í kvöld. Vestan 13-20 og él á morgun, en úrkomulítið austanlands. Frost 0 til 5 stig síðdegis. Norðlægari vindur undir kvöld með snjókomu á norðurhelmingi landsins, en stöku él syðra.

Á miðvikudag: Vestan 13-20 m/s og él, en úrkomulítið austanlands. Kólnandi, frost 0 til 5 stig síðdegis. Norðlægari um kvöldið og snjókoma á norðurhelmingi landsins.

Á fimmtudag: Minnkandi norðanátt. Léttskýjað sunnan- og vestanlands, en él um landið norðaustanvert. Frost 2 til 8 stig.

Á föstudag: Norðlæg átt og kalt í veðri. Él N- og A-lands og snjókoma við S-ströndina síðdegis.

Á laugardag: Austan og norðaustan hvassviðri eða stormur. Víða snjókoma og áfram kalt í veðri.

Á sunnudag: Norðaustanátt og snjókoma eða él norðan- og austanlands. Úrkomulaust að mestu á Suður- og Vesturlandi, en dálítil snjókoma með suðurströndinni. Frost um allt land.

Á mánudag: Austlæg átt og líkur á snjókomu eða éljum í flestum landshlutum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert