Bændur fá stuðning til afleysingaþjónustu

Nú styttist í að sauðburður hefjist hjá bændum.
Nú styttist í að sauðburður hefjist hjá bændum.

Að tillögu Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, hafa Vinnumálastofnun og stjórn Tryggingasjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga gert samkomulag við Bændasamtök Íslands um fjárstuðning vegna afleysingaþjónustu fyrir bændur sem veikjast af kórónuveirunni sem veldur COVID-19 sjúkdómnum og geta af þeim sökum ekki sinnt bústörfum.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins. Þar segir jafnframt að samkomulagið sé afturvirkt til 15. mars og gildi til og með 31. maí.

Samkvæmt samkomulaginu geta bændur sem veikjast af COVID-19 ráðið til sín starfsfólk tímabundið sem verktaka til að sinna afleysingum, að hámarki í 14 daga. Búnaðarsambönd deila verktökum niður, hvert á sínu svæði, og sjá um greiðslur til þeirra. Leitast verður eftir að ráða verktaka úr hópi einstaklinga sem eru skráðir atvinnuleitendur í viðkomandi umdæmi.

„Bændur eru ekki undanskildir áhrifum af COVID-19 og það getur haft mikil áhrif á afkomu þeirra til frambúðar ef þeir veikjast og geta ekki sinnt bústörfum. Það er því gríðarlega mikilvægt að við stígum inn í og hjálpum þeim að tryggja áframhaldandi starfsemi á sínum búum,” segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Tilkynning á vef Stjórnarráðsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert