Varðar börn sem færu til Grikklands og Ítalíu

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mál sem varða viðkvæma hópa, til dæmis börn sem endursenda ætti til Grikklands og Ítalíu á grundvelli verndar þeirra þar í landi, verða tekin til efnismeðferðar á Íslandi á grundvelli breytts mats Útlendingastofnunar vegna kórónuveirunnar.

Þetta kemur fram í svari Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra við fyrirspurn mbl.is. Samkvæmt breyttu mati eiga þeir sem hafa fengið neikvæða niðurstöðu og eru enn á landinu möguleika að fá efnismeðferð hjá Útlendingastofnun og vernd hérlendis. Um er að ræða umsækjendur í svokölluðum Dyflinnar- og verndarmálum.

Nokkuð hátt hlutfall gæti fengið jákvætt svar

Ekki er hægt að fullyrða hversu hátt hlutfall þeirra mála sem verða tekin til efnismeðferðar á grundvelli breytts mats mun fá jákvæða niðurstöðu. Þó má gera ráð fyrir að það verði nokkuð hátt þar sem töluverður fjöldi hópsins hefur þegar fengið alþjóðlega vernd í öðru Evrópuríki, að sögn Áslaugar Örnu.

Útlendingastofnun.
Útlendingastofnun. mbl.is/Hjörtur

Sérstök skoðun á málefnum barna

Aðspurð segir hún þessar breytingar vera viðbrögð vegna fordæmalausrar stöðu og gera þau ráð fyrir breyttu mati vegna COVID-19. „Eins og ég hef sagt er matið er í höndum Útlendingastofnunar og getur tekið breytingum ef aðstæður í löndum breytast. Enn er unnið að ýmsum málum er varða útlendinga, til að auka skilvirkni, sérstök skoðun á málefnum barna og viðkvæmra hópa og sérstaklega fylgdarlausra barna og ungmenna,“ segir hún.

„Staðan mun vera metin frá degi til dags í þessum viðbrögðum líkt og öðrum. En með þessu er verið að reyna draga úr óvissu umsækjenda, ekki síst barna sem verða hér í lengri tíma vegna COVID-19,“ bætir hún við.

Tölur yfir fjölda mála á leiðinni 

Þórhildur Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar, segist í samtali við mbl.is ekki vera komin með tölur yfir hversu mörg mál verða tekin til efnismeðferðar á grundvelli þessa breytta mats stofnunarinnar. Þær séu þó á leiðinni. 

mbl.is