Sýklalyfjaónæmi gæti bætt gráu ofan á svart

Talað er um lífshættulega blöndu af sýklalyfjaónæmum bakteríum og COVID-19.
Talað er um lífshættulega blöndu af sýklalyfjaónæmum bakteríum og COVID-19. AFP

Sýklalyfjaónæmi getur vel verið meðvirkandi ástæða fyrir því að fólk látist af völdum COVID-19-sjúkdómsins. Þetta segir Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, en bendir á að ekki sé um að ræða einu ástæðuna.

Rætt er við Karl í Bændablaðinu sem kom út í dag. Vísað er til greinar sem birtist á vefútgáfu Aftenposten nýlega, þar sem Erik Martiniussen, höfundur bókarinnar Stríðið við bakteríurnar, reifar þá kenningu að háar dánartölur á Ítalíu geti orsakast af því sem hann segir vera lífshættulega blöndu af sýklalyfjaónæmum bakteríum og COVID-19.

Fjölónæmar bakteríur möguleg ástæða

Bent er á að dánartíðni í Noregi, og annars staðar þar sem notkun sýklalyfja sé lítil, sé mun minni en þar sem notkunin á sýklalyfjum sé meiri. Segir í grein Martiniussen að árlega látist tæplega 11 þúsund manns á Ítalíu vegna sýklalyfjaónæmra baktería, aðallega E.coli, en 69 í Noregi.

„Ég hef sjálfur og fleiri velt fyrir sér af hverju dánartíðnin er hærri á Ítalíu en í flestum öðrum löndum. Bent hefur verið á að í mörgum tilfellum sé um eldri einstaklinga að ræða og að heilbrigðisþjónustan hafi ekki ráðið við að veita öllum viðeigandi meðferð. Því skal þó ekki neita að ein möguleg ástæða þessa séu fjölónæmar bakteríur þar sem bakteríusýkingar koma oft upp í kjölfar veirusýkinga,“ er haft eftir Karli í Bændablaðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert