Bjarga fólki af Sólheimasandi

Mynd úr safni en búið er að loka veginum frá …
Mynd úr safni en búið er að loka veginum frá Seljalandsfossi austur til Víkur í Mýrdal. mbl.is/Jónas Erlendsson

Búið er að loka veginum frá Vík í Mýrdal að Seljalandsfossi vegna veðurs og er hópur björgunarsveitarfólks að aðstoða fólk sem hefur lent í vandræðum á Sólheimasandi. Veður er afar slæmt á þessum slóðum sem og víðar. Verið er að bjarga fólki úr bílum á Sólheimasandi og eru tvær björgunarsveitir að störfum þar, Björgunarsveitirnar Dagrenning á Hvolsvelli og Víkverji í Vík. 

Búið er að loka Þrengslavegi.

Ófært er frá Skaftafelli að Kvískerjum vegna veðurs. Fróðárheiði er þungfær og skafrenningur þar og Þröskuldar eru ófærir og eins Klettsháls á Vestfjörðum. Gemlufallsheiði er ófær vegna veðurs og verður það sennilegast til mánudagsmorguns miðað við veðurspá, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Steingrímsfjarðarheiði er ófær og miðað við veðurspá opnar vegurinn ekki í dag.

Ekkert ferðaveður er á Tröllaskaga milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar og er skyggni lítið sem ekkert. Siglufjarðarvegur er ófær og opnar ekki í dag.

Ófært er orðið um Hófaskarð og Hálsa en þæfingur er á Raufarhafnarvegi og á Hólaheiði. Óhætt er að segja að ófært verði fljótlega á þeim tveimur síðarnefndu, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert