Dróninn reyndist ómetanlegur

Hraunið var erfitt yfirferðar.
Hraunið var erfitt yfirferðar. Ljósmynd/Björgunarsveitin Heiðar

Dróni búinn hitamyndavél reyndist ómetanlegur fyrir slökkvilið til að meta aðstæður á vettvangi gróðureldanna sem loguðu í Norðurárdal í gærkvöldi og nótt.

Dróninn var á vegum björgunarsveitarinnar Heiðar og segir formaður hennar, Arnar Grétarsson, að hann hafi virkað vel til að stýra mannskapnum í svo umfangsmiklum bruna. Gaf hann góða mynd af því hvar eldurinn var sterkastur og þótti því auðveldara en ella að senda mannskap hverju sinni þangað sem hans var mest þörf.

„Hann kom sér líka mjög vel við leitina að stráknum við Hreðavatn um daginn,“ segir Arnar í samtali við mbl.is.

Sjá má á þessari mynd og næstu hvernig hitamyndavélin sér …
Sjá má á þessari mynd og næstu hvernig hitamyndavélin sér í gegnum reykinn. Ljósmynd/Björgunarsveitin Heiðar

Aðeins ein þyrla laus í útkall

„Dróninn hefði líklega fundið hann ef hann hefði ekki verið búinn að labba langt út fyrir áætlað leitarsvæði. Við skönnuðum í upphafi hvort hann hefði nokkuð dottið í gegnum ísinn á vatninu. En hann á erfitt með að leita í þykkum skógi. Þess vegna varð sú leit svo mannaflsfrek.“

Landhelgisgæslan gat ekki léð þyrlu til slökkvistarfa þar sem senda þurfti einu nothæfu þyrluna til leitar að sjómanninum sem féll fyrir borð í Vopnafirði.

Arnar segir að þyrla hefði að líkindum leyst verkefnið á skömmum tíma.

„Það er nóg vatn í Hreðavatni sem liggur nærri. Það er vont ef þyrlurnar verða áfram mikið inni á verkstæði.“

Mynd úr hitamyndavél björgunarsveitarinnar.
Mynd úr hitamyndavél björgunarsveitarinnar. Ljósmynd/Björgunarsveitin Heiðar
mbl.is