Fjölmennt partí í Öskjuhlíð í nótt

Ljósmynd/Árni Steinn Viggósson

Skemmtistaðir eru lokaðir vegna tilmæla sóttvarnayfirvalda og veitingahús, sem eru þau einu sem geta veitt vínþyrstum, loka klukkan ellefu á kvöldin. Djammið finnur sér þó farveg: Í Öskjuhlíðinni var djammað fram á nótt í nótt.

Tildrög málsins munu þau að vinahópur hefur lengi stundað að hittast á útivistarsvæðinu að næturlagi. Orð barst frá manni til manns í gærkvöld um að samkoma væri fyrirhuguð. Af skiljanlegum ástæðum var spurnin eftir eftirpartíi eftir bæinn mikil, þannig að +1 varð +150, eða svo. 

Heimildarmaður mbl.is, sem lýsir þessu sem „rave“-i undir berum himni, segir að þegar mest hafi látið hafi líklega 200 manns verið samankomnir í fögnuðinum. Hann hafi náð hápunkti um tvöleytið en staðið nokkuð langt fram á nótt, og stemningin nokkuð stöðug.

Fólk hátt og lágt.
Fólk hátt og lágt. Ljósmynd/Aðsend

Að sögn heimildarmannsins var samsetning hópsins ekki fyrirsjáanleg. Gestirnir voru þannig ólíkir innbyrðis, en mynduðu eina sterka heild, eins og skáldið lét sér um munn fara. Þetta var síðan alls kostar öfgalaust þó að hávaði hefði ekki einu sinni truflað nágranna.

Það var enginn plötusnúður heldur bara hófstillt græja með tónlist. Undir morgun stigu stundvísir söngfagrir fuglar á himinsvið.

Ljósmynd/Árni Steinn Viggósson

Skemmtistaðir mega opna á morgun en enn um sinn aðeins til ellefu á kvöldin. Sömuleiðis er hámarksfjöldi orðinn 200, þannig að næstu helgi má gera ráð fyrir nokkru skemmtanalífi þó að á kristilegum tíma verði. Hvert leið liggur eftir lokun er síðan önnur spurning. 

mbl.is