Vísað út af veitingastað vegna ónæðis

Lögreglu bárust ítrekaðar kvartanir í morgun undan ónæði og hegðun manns á veitingastað í miðborginni. Manninum var vísað út og honum gefin fyrirmæli um að koma ekki aftur, eftir því sem fram kemur í dagbók lögreglu. 

Þá var tilkynnt um ölvaða konu sem var til vandræða á veitingahúsi í í Grafarvogi eftir hádegi í dag. Lögregla ók konunni heim til sín frá veitingahúsinu.

Slagsmál í Kópavogi

Rétt fyrir klukkan 8 í morgun var tilkynnt um umferðarslys þegar bifreið ók út af Suðurlandsvegi við Hádegismóa. Ökumaðurinn hlaut minni háttar meiðsli, en bifreiðin varð óökufær og var dregin með kranabifreið af vettvangi. 

Þá var tilkynnt um slagsmál í Kópavogi klukkan 5 í morgun. Tveir vinir hlutu báðir þó nokkur meiðsli eftir að hafa rifist og slegist. Hvorugur þeirra vildi kæra málið eða blanda lögreglu í það frekar. 

Um klukkan 10 hafði lögregla síðan afskipti af erlendum manni í Kópavogi sem ekki hefur landvistarleyfi. Maðurinn er vistaður í fangageymslu á meðan mál hans er í skoðun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert