Einstæður árangur við lagadeild Duke

Snæbjörn útskrifaðist með ágætiseinkunn úr Duke á dögunum.
Snæbjörn útskrifaðist með ágætiseinkunn úr Duke á dögunum. Ljósmynd/Aðsend

Snæbjörn Valur Ólafsson útskrifaðist á dögunum magna cum laude með meistaragráðu í lögfræði (LL.M.) frá lagadeild Duke-háskóla í Durham í Norður-Karólínu en örfáir nemendur hljóta slíka viðurkenningu við útskrift frá skólanum ár hvert. Um er að ræða sambærilegan árangur því að fá ágætiseinkunn.

Diljá Helgadóttir, kærasta Snæbjarnar, stundaði einnig nám við lagadeild Duke-háskóla og hlutu þau bæði veglegan skólastyrk frá skólanum. Segir Snæbjörn það hafa verið frábært að þau hafi getað stundað námið á sama stað og sama tíma en framhaldsnám í lögfræði í bandarískum háskóla hafi verið langþráður draumur hjá þeim báðum. 

Keppst um að fá orðið

Snæbjörn hefur starfað á LEX lögmannsstofu frá 2017, en útskrifaðist áður með grunn- og meistaragráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands. Hann segir töluverðan mun á náminu heima á Íslandi og við Duke:

„Hér úti er mun meiri áhersla lögð á þátttöku nemenda í kennslustundum en heima. Búist er við því að nemendur mæti vel lesnir þannig að þeir geti tekið virkan þátt í umræðum um námsefnið. Einnig er gert ráð fyrir því að nemendur undirbúi spurningar til kennara og geti svarað spurningum sem kennarar leggja fyrir þá en þær eru yfirleitt mjög krefjandi. Kennararnir spyrja ýmist handahófskennt eða eftir fyrirframákveðnu skipulagi. Það er því mikil pressa á nemendum að mæta undirbúnir og vera með á nótunum,“ segir Snæbjörn í samtali við mbl.is, en hann er enn staddur vestanhafs.

„Mikil samkeppni er á milli nemenda og það kemur fyrir að þeir hreinlega keppist um að fá orðið í kennslustundum. Sjálfur lagði ég mikið upp úr því að undirbúa mig vel til þess að ég fengi sem mest út úr náminu,“ segir Snæbjörn. 

Það var langþráður draumur hjá Diljá og Snæbirni að stunda …
Það var langþráður draumur hjá Diljá og Snæbirni að stunda nám við bandarískan háskóla. Ljósmynd/Aðsend

Einkunnir á kúrfu

Hin mikla samkeppni á milli nemenda stafar fyrst og fremst af því að einkunnir eru gefnar á línulegri kúrfu og LL.M.-nemendur fá einkunnir á sömu kúrfu og bandarískir laganemar. Við einkunnagjöf þurfa kennarar að raða nemendum niður á hina línulegu kúrfu eftir frammistöðu þeirra. Nemendur keppast síðan um að lenda efst á kúrfunni og getur sú samkeppni verið hörð.

„Síðan eru prófin og námsmatið í raun öðruvísi en heima. Hér úti fá nemendur yfirleitt að taka bækur og önnur gögn með sér í próf. Áherslan er því ekki á utanbókarlærdóm heldur frekar að geta leyst úr þeim álitaefnum sem lögð eru fyrir,“ segir Snæbjörn. 

Þessa skipan telur Snæbjörn síst af öllu af hinu illa og hefur hann kunnað mjög vel við sig í Duke: „Það er frábær háskólastemning hérna í bænum sem maður hefur oft saknað þess að sjá í Reykjavík,“ segir hann og vísar þar til langrar sögu skólans, skólasvæðisins og sterks íþróttalífs í tengslum við skólann.

Mikilvægt að geta unnið á ensku

Þessa stundina undirbýr Snæbjörn sig fyrir að taka lögmannsréttindin í New York og kveðst ekki víla fyrir sér að þetta sé allt á ensku. „Maður vill geta unnið á ensku og þetta hefur verið frábært tækifæri til þess að þjálfa mig enn frekar í því,“ segir hann.

Sömuleiðis var nokkur áhersla lögð á það í náminu að nemendur byggðu sér upp tengslanet. Í náminu hafi verið 96 nemendur frá 39 löndum, sem vitanlega nýttu tækifærið þetta árið til þess að mynda sem best alþjóðleg tengsl, enda er gott tengslanet afar mikilvægt í heimi lögfræðinnar.

Við útskriftina hlaut Snæbjörn einnig sérstök verðlaun fyrir framúrskarandi námsárangur. Áðurnefnd LL.M. er meistaragráða í lögfræði sem einkum er hugsuð fyrir lögfræðinga sem lokið hafa lagaprófi frá háskólum utan Bandaríkjanna. Lagadeild Duke-háskóla býður upp á þrjár námsbrautir en nemendur geta einnig mótað sína eigin námsbraut með því að velja úr þeim rúmlega 300 námskeiðum sem í boði eru við deildina. Snæbjörn útskrifaðist með LL.M.-gráðu í alþjóðlegum viðskiptarétti og sérhæfði hann sig einkum í verðbréfamarkaðsrétti, samkeppnisrétti og regluverki fjárfestingasjóða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert