Alelda beltagrafa

Beltagrafan var alelda þegar mannskapurinn mætti á vettvang.
Beltagrafan var alelda þegar mannskapurinn mætti á vettvang. Ljósmynd/Brunavarnir Árnessýslu

Brunavarnir Árnessýslu voru boðaðar út vegna elds í beltagröfu í dag. Þegar mannskapur frá slökkvistöðinni kom á vettvang, sex menn á dælubíl og tankbíl, var grafan orðin alelda.

Fram kemur á Facebook-vef brunavarnanna að varðstjóri þurfi að huga að mörgu á leið á vettvang; fyrst hvort mannslíf séu í hættu og svo hvort frekari hætta sé á útbreiðslu elds, og hvort nægjanlegur mannskapur og tæki séu á leið á vettvang.

Metnaðarfullur og vel menntaður mannskapur

„Hann er ekki síður meðvitaður um umhverfið með umhverfisvernd í huga. Vissulega ber slökkviliði að slökkva eld en þó verðum við að hafa í huga hvað er í nánasta umhverfi. Getur slökkvivatnið haft skaðleg áhrif á vatnsból eða ár sem eru nálægt eldstað?“ segir á vefnum.

„Að mörgu er að huga og erum við einstaklega vel sett með hversu metnaðarfullan og vel menntaðan mannskap við höfum í Brunavörnum Árnessýslu.“

mbl.is