„Svo gaman að sjá einkunnina 10“

Dúxinn Þorri Þórarinsson kátur, ásamt Ingileif Oddsdóttur, skólameistara FNV.
Dúxinn Þorri Þórarinsson kátur, ásamt Ingileif Oddsdóttur, skólameistara FNV. Ljósmynd/Aðsend

„Mér líður ótrúlega vel, ég er búinn að vinna hart að þessu í ótrúlega langan tíma. Þetta er bara yndislegt,“ segir Þorri Þórarinsson, dúx Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, í samtali við mbl.is. Afrek Þorra er ótrúlegt en hann hlaut meðaleinkunnina 10,0 á náttúrufræðibraut.

Brautskráning skólans fór fram í dag, 5. júní, og voru gefin út 74 prófskírteini við hátíðlega athöf í íþróttahúsinu á Sauðárkróki.

Þorri segist hafa óendanlegan mentað fyrir námi, en að það skipti miklu máli að muna að slappa af og taka því rólega inn á milli.

Þorri segist ekki alltaf hafa haft svona mikinn metnað fyrir námi, en að það hafi stóraukist þegar hann byrjaði í framhaldsskóla. „Þegar ég sá fyrstu tíurnar fékk ég mikinn metnað til að halda þessu áfram. Það er svo gaman að sjá einkunnina 10,“ segir Þorri.

Líkt og aðrir útskriftarnemendur þurfti Þorri að ljúka námi sínu í fjarkennslu vegna kórónuveirufaraldursins, en hann segir það ekki hafa haft mikið áhrif á námsárangurinn. „Stressið minnkaði mikið við að vera heima. Það er vegna þess að ég held mjög vel utan um námið mitt og var mjög tilbúinn í þessar óvissuaðstæður.“

Dúxinn segist sinna hefðbundnu félagslífi í framhaldsskóla „sorglega lítið“. 

„Ég slaka á með vinum mínum, aðallega í gegnum tölvuna. Ég bý sveit, langt í burtu, þannig það er þægilegasta leiðin til að hafa samband við þá. Svo hef ég önnur áhugamál. Lesa bækur, horfa á þætti,“ segir Þorri en hann stefnir á nám í lífefna- og sameindalíffræði við Háskóla Íslands í haust.

mbl.is