Æfa móttöku ferðamanna og skimun í Keflavík

Búið er að koma upp skimunaraðstöðu og tölvubúnaði á Keflavíkurflugvelli …
Búið er að koma upp skimunaraðstöðu og tölvubúnaði á Keflavíkurflugvelli til að hægt sé að skima þá sem koma hingað til lands eftir 14. júní. mbl.is/Eggert

Verkefnið um skimun á landamærum Íslands hefst formlega á mánudagsmorgun. Þá lendir flugvél frá Danmörku á Keflavíkurflugvelli og farþegarnir verða þeir fyrstu sem fara í gegnum skimunarferlið sem er búið að vera í undirbúningi í nokkrar vikur. Til þess að allt gangi smurt þegar kemur að stóru stundinni fer fram æfing í dag eða generalprufa.

Breytingar á reglum um komu ferðamanna til landsins taka gildi á mánudaginn og strax þá er búist við sex flugvélum til landsins. Sýnatakan sem ferðamenn taka þátt í verður ókeypis fyrstu tvær vikurnar.

Búið er að setja um skimunaraðstöðu á Keflavíkurflugvelli, bása og tölvukerfið sem heldur utan um upplýsingar um farþega. Ferðamenn skrá rafrænt áður en þeir fara í loftið hvort þeir vilji taka þátt í sýnatöku eða fara í tveggja vikna sóttkví. Þá er einnig búið að koma upp sjálfsafgreiðslubásum fyrir þá ferðamenn sem gleyma að skrá sig fyrir flug.

Æfingin sem hefst klukkan tvö í dag á að sjá til þess að allt virki og flæðið sé gott. Aukaleikarar“ verða í hlutverki ferðamanna og verða látnir fara í gegnum ferlið auk þess sem tölvufræðingar og aðrir taka þátt í æfingunni svo allir verði tilbúnir þegar mánudagur gengur í garð og raunverulegir ferðamenn koma hingað til lands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert