Greina sýni frá 6 á morgnana og fram á nótt

Íslensk erfðagreining sér um að greina sýni sem tekin eru …
Íslensk erfðagreining sér um að greina sýni sem tekin eru á Keflavíkurflugvelli. Þeim sýnum fer sífellt fjölgandi. mbl.is/Styrmir Kári

Stór hópur fólks kemur að því að láta vinnu við skimanir þeirra sem koma að utan ganga upp, að sögn Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns hjá almannavörnum. Hann tekur sem dæmi að starfsfólk Íslenskrar erfðagreiningar mæti til vinnu klukkan sex á morgnana og greini sýni til klukkan tvö eða jafnvel þrjú að nóttu svo allt gangi upp. 

„Við erum alltaf að læra eitthvað nýtt, endurmeta og endurbæta og gera betur næsta dag. Það er þannig hjá okkur núna að þetta gengur vel en þetta er gríðarlega mikil vinna,“ segir Víðir. 

Farþegafjöldi á Keflavíkurflugvelli hefur farið vaxandi síðan nýjar reglur um komur fólks til landsins tóku gildi á mánudag en með þeim hefur fólk val um að fara í sýnatöku eða sóttkví við komuna til landsins. Spurður hvort farþegafjöldinn sé viðráðanlegur segir Víðir:

„Við ráðum alveg við þetta enn þá og sjáum hvernig þetta þróast áfram en við settum viðmið um að afgreiða 2.000 á dag. Okkur sýnist að við munum alveg örugglega geta gert það og jafnvel meira. Það kemur aðeins í ljós þegar líður á vikuna.

Mynd úr Leifsstöð á mánudag. Þá varð til vandræða hversu …
Mynd úr Leifsstöð á mánudag. Þá varð til vandræða hversu margir sem komu að utan föðmuðu fólk á flugvellinum. Víðir segir að nú hafi verið skerpt á leiðbeiningum um slíkt. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þeir sem sitja næst smituðum fara í sóttkví

Tuttugu og tveir þurftu að fara í sóttkví vegna farþega í flugi á leið til Keflavíkur sem kom til landsins í fyrradag og reyndist smitaður. Spurður hvers vegna það sé og hvort fjarlægðartakmörk hafi ekki verið virt í vélinni segir Víðir:

„Þetta er bara unnið eftir reglum varðandi nálægðir í flugvél. Það eru þeir sem sitja næst viðkomandi í vélinni sem þurfa að fara í sóttkví. Nú þegar búið er að setja grímuskyldu á farþega þá höfum við óskað eftir því við Sóttvarnastofnun Evrópu að hún gefi út nýjar leiðbeiningar um það hvernig á að haga þessu. Við erum enn að bíða eftir niðurstöðu hvað það varðar.“

Aðspurður segir Víðir að engin alvarleg vandræði hafi komið upp vegna grímuskyldunnar. 

„Við höfum ekki heyrt af neinu sem hefur valdið einhverjum stórum vandræðum. Fólk hefur stundum ekki komið með grímur en þegar því hefur verið bent á þetta hefur fólk farið eftir því.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert