Valdi í Hjólakrafti Reykvíkingur ársins

Þorvaldur Daníelsson Reykvíkingur ársins og Ásgeir Heiðar veiðileiðsögumaður með fyrsta …
Þorvaldur Daníelsson Reykvíkingur ársins og Ásgeir Heiðar veiðileiðsögumaður með fyrsta laxinn. Veitt er á flugu og sleppt. Ljósmynd/Aðsend

Þorvaldur Daníelsson er Reykvíkingur ársins 2020. Hann er fimmtugur Breiðhyltingur og er sjaldan kallaður annað en Valdi í Hjólakrafti, þar sem hann kappkostar að ná ungu fólki úr vanvirkni í virkni með hjólreiðum.

Sem hefð býður opnaði Þorvaldur Elliðaánna í morgun í félagsskap Dags B. Eggertssonar borgarstjóra, Ásgeirs Heiðars, sem er veiðileiðsögumaður við ánna, og fleiri góða. Þorvaldur var ekki lengi að setja í fyrsta laxinn, en að sinni er aðeins veitt á flugu og öllum fiskum sleppt samkvæmt ráðgjöf Hafró.

Að því er segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg vann Þorvaldur hjá Krafti stuðningsfélagi ungs fólks með krabbamein 2012 þegar honum datt í hug að stofna vísirinn að Hjólakrafti, fyrir ungt fólk með margvíslegan vanda. Í dag snertir Hjólakraftur líf um 500 einstaklinga á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Sjálfur var hann ekki með krabbamein en hann missti eiginkonu sína úr krabbameini. „Lífið heldur áfram,“ segir hann. „Það bara fór svona, því miður.“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Þorvaldur Daníelsson í Hjólakrafi, Reykvíkingur …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Þorvaldur Daníelsson í Hjólakrafi, Reykvíkingur ársins 2020. Valdi er við hækju þessa stundina, enda með slitna hásin. Það stoppaði hann ekki frá því að ná fyrsta laxinum. Ljósmynd/Aðsend

Varla lögð af stað þegar síminn byrjaði að hringja

Hjólin byrjuðu að rúlla hjá Valda þegar hann kom á samvinnu við Landspítalann en þar voru ungir krakkar í meðferð sem áttu við margvísleg heilsufarsvandamál að stríða vegna hreyfingarleysis og rangs mataræðis. Í dag fær Hjólakraftur ungt fólk sem á við margvíslegan annan vanda að stríða. Allir eru velkomnir og allir eru hvattir til að byrja að hjóla úti.

„Hjólakraftur varð til þegar ég fékk hugmynd að því að fara af stað með forvarnarverkefni í samvinnu við Heilsuskóla Landspítalans en þar voru krakkar sem áttu margir hverjir við mikinn offituvanda að stríða. Þetta voru fyrstu krakkarnir sem ég náði út að hjóla. Ég sagði við þau fyrstu eftir að þau höfðu tekið þátt í námskeiði hjá mér að ef þau yrðu dugleg að æfa sig um veturinn myndum við taka þátt í Wow Cyclothon um sumarið. Ég hafði samband við Skúla Mogensen og hann var til í að gefa þessu tækifæri þótt þau væru of ung fyrir keppnina. Þetta tókst mjög vel og krakkarnir stóðu við sitt og hjóluðu hringinn. Við fengum umfjöllun í fjölmiðlum um þetta og vorum varla lögð af stað þegar síminn byrjaði að hringja. Ég var spurður að því hvort þetta gæti ekki hentað ungu fólki með ADHD og krökkum í alls konar vanda. Hjólin hafa bara ekki hætt að snúast síðan.“

Stjórnmálafræði, hjólreiðar og stjórnun fyrirtækja

Þorvaldur er með samninga við ýmsa grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu en til hans koma einnig ungmenni úr framhaldsskólum eins og Fjölbraut í Breiðholti og Menntaskólanum í Kópavogi. Hann rekur nú höfuðstöðvar Hjólakrafts í húsnæði sem borgin leigði ódýrt út til ýmissa samtaka og einstaklinga í verslunarkjarna í Arnarfelli og er að standsetja annað húsnæði í Völvufelli í Efra-Breiðholti. Þar verður m.a. klifurveggur og fleira skemmtilegt. „Starfsemin snýst einfaldlega um að ná ungu fólki úr vanvirkni í virkni,“ segir hann.

Þorvaldur er með BA gráðu í stjórnmálafræði og kláraði fyrir tveimur árum MBA gráðu í viðskiptafræði frá HR. Hann hefur m.a. unnið sem framkvæmdastjóri fyrirtækja. 

„Þegar ég var tvítugur snerist lífið bara um að vinna og vinna og koma sér fyrir í lífinu. En líkaminn var að grotna niður. Þannig að ég byrjaði að hjóla. Hjólreiðar eru frábært fjölskyldusport og góð hreyfing til að koma sér í form. Það geta allir hjólað sem hafa lært það einu sinni. Maður getur ef til vill ekki spilað fótbolta við börnin en það geta allir sem geta setið á reiðhjóli hjólað saman. Ég hef farið með krakka í Cyclothonið sex sinnum og það gerir ótrúlega mikið fyrir þau að taka þátt í þessu og klára það. Áherslan hjá okkur er að allir geti verið með. Það hafa allir gott af því að vera úti, reyna á sig og eignast nýja vini í gegnum hjólreiðarnar eða annað útivistarsport.“

Áhugasamir um Hjólakraft geta skoðað heimasíðu félagsins hjolakraftur.com

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert