Skoða hvort senda eigi Íslendinga í sóttkví

Þórólfur Guðnason á blaðamannafundi í dag.
Þórólfur Guðnason á blaðamannafundi í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Til skoðunar er hvort Íslendingar sem koma frá löndum þar sem útbreiðsla kórónuveiru er mikil eigi að fara í sóttkví við komuna til landsins auk sýnatöku. Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum í dag. 

Eins og greint var frá í dag hefur fyrsta innanlandssmit kórónuveiru í tvo mánuði greinst en í því tilfelli hafði kona ekki greinst í sýnatöku við komuna til landsins en síðar greindist hún með veiruna. Þá var hún búin að smita að minnsta kosti einn mann og eru 300 í sóttkví vegna málsins. Þórólfur sagði að málið væri eitt það stærsta sem rakningateymið hefði tekist á við en konan var líklega mjög nýlega smituð þegar hún fór í sýnatöku á Keflavíkurflugvelli.

Gera allt til að stöðva útbreiðslu

„Þetta sýnir að smithættan er alltaf fyrir hendi og kannski er smithættan mest af Íslendingum sem eru að koma erlendis frá vegna tengslanets Íslendinga hér innanlands.“

Þórólfur sagði að yfirvöld myndu læra af því og hvatti Íslendinga sem eru á ferð erlendis að huga að einstaklingsbundnum sýkingavörnum og hann hvatti einnig þá Íslendinga sem koma hingað erlendis frá að huga vel að sínum sýkingavörnum. Sérstaklega ættu Íslendingar sem koma frá Bandaríkjum, Brasilíu, Svíþjóð, Indlandi og Rússlandi að hafa varann á. 

„Það eru allt of margir sem hafa slakað á þessum reglum,“ sagði Þórólfur og vísaði þá til einstaklingsbundinna sýkingavarna. Hann sagði að það væri stór áhættuþáttur fyrir útbreiðslu. 

„Við munum gera allt til þess að stöðva útbreiðslu á sýkingum sem hér koma upp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert