Bannað að heimsækja eftir útlandaferð

Mörk hjúkrunarheimili.
Mörk hjúkrunarheimili. Eggert Jóhannesson

Vegna innanlandssmita og mögulegrar hópsýkingar á höfuðborgarsvæðinu hefur neyðarstjórn velferðarsviðs Reykjavíkurborgar gefið út tilmæli um heimsóknir í þjónustuíbúðir fyrir aldraða, á hjúkrunarheimili og íbúðakjarna eða sambýli í húsnæði fyrir fatlað fólk vegna COVID-19.

Fólk sem hefur verið erlendis á ekki að heimsækja íbúa í tvær vikur eftir komu til landsins. Þetta gildir jafnvel þó að ekki hafi greinst smit við sýnatöku á landamærum.

Fólk sem hefur umgengist einstaklinga með smit á ekki að heimsækja íbúa og þá á fólk sem finnur fyrir kvefi eða flensulíkum einkennum ekki að heimsækja íbúa.

Hið sama mun gilda um starfsfólkið á þessum stöðum, sem þarf að fara sérstaklega varlega.

Áfram geta aðrir gestir heimsótt íbúa með eðlilegum sóttvarnafyrirvörum. Að því er segir í tilkynningu um málið mun neyðarstjórnin endurmeta stöðuna 13. júlí.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert