Engin viðurlög við brotum á málfræðireglum

Ármann Jakobsson, prófessor í miðaldabókmenntum við Háskóla Íslands og formaður …
Ármann Jakobsson, prófessor í miðaldabókmenntum við Háskóla Íslands og formaður Íslenskrar málnefndar, gerði athugasemd í nafni nefndarinnar við skilti í Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem Morgunblaðið og mbl.is fjölluðu um í gærmorgun. Hann ræddi störf nefndarinnar og stöðu íslenkrar tungu við mbl.is. mbl.is/Haraldur Jónasson / Hari

Íslensk málnefnd hefur sent embætti landlæknis og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra bréf vegna skiltis í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og hefur þegar fengið svör þess efnis að skiltið verði lagfært. Morgunblaðið og mbl.is fjölluðu í gærmorgun um orðalag skiltisins, þar sem rætt er um „bar kóða“ í stað strikamerkis sem sumum þætti eðlilegra, að minnsta kosti Eiríki Rögnvaldssyni, prófessor emeritus í íslensku nútímamáli.

Ármann Jakobsson, formaður Íslenskrar málnefndar, ritar undir bréfið til landlæknis og ríkislögreglustjóra. „Okkur barst ábending í gærmorgun um þetta hugtak, „bar kóði“ sem fólk kannast ekkert við að sé íslenska og þegar okkur berast slík erindi sendum við bréf til hlutaðeigandi aðila,“ segir Ármann og bætir því við að málnefndin geri ríkari kröfur til opinberra aðila en annarra.

Svör oft tímafrek

„Við fengum svör frá þessum aðilum samdægurs,“ segir nefndarformaðurinn. „Hlutverk okkar í Íslenskri málnefnd er að fylgjast með notkun íslensku og að tungumálið sé alltaf í öndvegi hér á Íslandi. Við gerum einnig athugasemdir sé málnotkun stofnana eða fyrirtækja ábótavant.“

Eru slíkar umvandanir algengar?

„Já já, þetta eru allnokkur bréf á ári,“ svarar hann. „Viðtökurnar eru auðvitað misjafnar, stundum fáum við síðbúin svör, málfræðireglur eru nú því marki brenndar að við brotum á þeim liggja engin viðurlög,“ segir Ármann, sem ber gráðuna dr. phil í íslenskum bókmenntum og gegnir prófessorsstöðu í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands en hvorar tveggju MA- og doktorsritgerðir hans fjölluðu um sögur Noregskonunga og voru gefnar út á bók á sínum tíma undir titlunum Í leit að konungi og Staður í nýjum heimi.

„Við metum síðan viðbrögðin við erindum okkar, hvort við ítrekum þá ábendingu okkar eða höldum áfram með málið með öðrum hætti,“ segir prófessorinn. Eðlilega taka þeir, sem ábendingum er beint að, oftar en ekki tillit til erinda málnefndarinnar.

„En þetta hefur líka óbein áhrif,“ segir Ármann, „aðrir taka eftir þessu og það verður þeim hvatning til að vanda sitt málfar.“

Hann segir það færast í vöxt að Íslensk málnefnd, sem stofnuð var með lögum árið 1964, geri athugasemdir við ensku sem almennt vinnutungumál á Íslandi og þar með gjarnan það tungumál sem notað er í erindum frá vinnuveitendum til starfsmanna. „Oft er verið að nota ensku, sem okkur finnst ekki tæk lausn, í mörgum tilfellum er enska ekki móðurmál þess starfsfólks sem henni er beint að og þá er engin trygging fyrir því að þetta fólk sé eitthvað betra í ensku en íslensku,“ segir Ármann.

Nefndin nýkomin á samfélagsmiðla

Hvað er Íslensk málnefnd þá að grúska dags daglega?

„Jú, hjá okkur hafa nú verið gerðar ýmsar breytingar. Nefndin var skilin frá Íslenskri málstöð og er nú algjörlega sjálfstæð. Við erum með einn starfsmann sem er jafnframt starfsmaður Árnastofnunar svo við erum ekki með starfsmann í fullri stöðu. Við erum fimm manns í stjórn, og þannig hefur það verið lengi, en í nefndinni eru mun fleiri, fólk er tilnefnt í nefndina af ýmsum samtökum og opinberum aðilum. Eins hefur nefndin heimasíðuna Íslenskan.is þar sem nálgast má allar greinargerðir, fundargerðir, hlutverk og stefnu nefndarinnar og fleira. Þetta er ágæt síða svo ég segi sjálfur frá,“ segir Ármann og hlær.

Hann segir einnig mega nálgast yfirlit yfir erindi nefndarinnar á síðunni. „Svo erum við komin á Tístið [Twitter] en við höfum ekki verið á samfélagsmiðlum fyrr en núna,“ segir hann enn fremur.

Hvernig telur Ármann hlutverk Íslenskrar málnefndar hafa breyst í áranna rás?

„Það breytist stöðugt með þróun samfélagsins og tungunnar. Þegar Íslensk málnefnd er stofnuð er Ísland ekki fjölmenningarsamfélag og samskiptabyltingin er ekki hafin og síðan það gerist hafa auðvitað alls konar breytingar komið upp og líka ógnir gagnvart íslenskri tungu. Í gamla daga var til dæmis hægt að berjast fyrir því að [sjónvarps]efni væri textað, en nú er fólk iðulega að horfa á efni sem kemur ekki frá íslenskum miðlum og ekki hlaupið að því að eiga við það,“ segir Ármann.

Íslenska og peningar eiga litla samleið

Prófessorinn hefur marga fjöruna sopið og kennt greinar, tengdar móðurmálinu, áratugum saman. Telur Ármann íslenskuna eiga frekar undir högg að sækja nú en til dæmis um aldamótin? Er þessi norræna örtunga á undanhaldi?

„Núna er mjög mikill áhugi í gangi víða um heim og mikil jákvæðni. Eitt vandamál er hins vegar að það hefur ekki verið til siðs að setja mikla fjármuni í íslensku, tilhneigingin hefur verið að þessi barátta sé af hugsjón og í sjálfboðavinnu og auðvitað er heilmikil slík vinna í gangi en þetta hefur auðvitað heilmikil áhrif,“ segir Ármann og bendir um leið á annan aðflugspunkt.

„Líklega hefur aldrei verið meiri áhugi á íslensku í heiminum sem nú, allir þessir sjónvarpsþættir hafa verið gerðir, Game of Thrones og fleiri sem vekja gríðarlegan áhuga á landinu og tungumálinu. Til dæmis verk Tolkiens [Hringadróttinssaga], þarna eru mjög sterkar tengingar við Ísland og íslenskan tengist svo mörgu í heimsmenningunni. Maður sér íslenskar tengingar alls staðar,“ segir Ármann.

„Nú er meira að segja búið að gera þessa mynd um [Eurovision] söngvakeppnina sem ef til vill er nú ekki frábær landkynning, en allt vekur þetta áhuga á Íslandi og íslenskri menningu. Þó kostar það útlendinga gríðarlega vinnu að ná móðurmálsfærni í íslensku, við eigum okkur mjög flókið tungumál málfræðilega og reynist ekki öllum auðvelt að tileinka sér,“ segir hann.

Íslenskukennsla í ágætu horfi

Ármann segir Ísland nú meira áberandi en áður, sem sé þó beggja handa járn. „Við þurfum að fóta okkur í þessum nýja veruleika, laga okkur að honum og tryggja að þeir sem sinna íslensku hafi næga burði til þess, að nægur mannfjöldi sé til að kenna hana og fjármunir til þess að allir geti lært hana,“ segir Ármann og leggur þunga áherslu á orð sín.

Hvað sýnist prófessornum þá um íslenskukennslu í framhaldsskólum, finnst þar mögulega rými til bætinga, stendur íslenskan jafnvel höllum fæti gagnvart öðrum tungumálum?

„Íslenskukennsla á landinu er, eftir minni tilfinningu að dæma, í ágætu horfi, það þarf þó að gera móðurmálskennslu meira aðlaðandi og kannski meira spennandi fyrir nemendur,“ svarar Ármann. „Mamma þín var til dæmis mjög skemmtilegur kennari,“ segir prófessorinn og dregur móður blaðamanns óvænt inn í viðtalið en hún kenndi íslensku við Menntaskólann í Reykjavík árum saman.

„Móðurmálskennsla hefur alltaf verið hugsjónastarf og núna er heimurinn orðinn alþjóðlegur, einfalt að ferðast, allir á samfélagsmiðlum, Ísland löngu orðið sjálfstætt og fólk brennur þess vegna ekki fyrir íslenskunni á sama hátt og áður, eða það er að minnsta kosti stundum mín tilfinning, viðhorfið til málsins hefur breyst og áhuginn dofnað og það er eitthvað sem við þurfum að vinna í og sigrast á,“ segir Ármann Jakobsson, formaður Íslenskrar málnefndar, logandi af eldmóði.

mbl.is