Útskrifaðist með hreina tíu í meðaleinkunn

Ísak á útskriftardaginn.
Ísak á útskriftardaginn. Ljósmynd/Aðsend

Ísak Valsson útskrifaðist frá Háskóla Íslands á laugardag með gráðu í hagnýttri stærðfræði og hlaut hreina tíu í meðaleinkunn í náminu. 

Ísak er fyrsti nemandinn til að útskrifast úr hagnýttri stærðfræði með hreina tíu, en þess eru þó dæmi að nemendur hafi útskrifast úr öðrum raunfræðigreinum með sömu einkunn. 

Ísak segist alltaf hafa stefnt að því að standa sig vel í náminu. 

„Þetta kom svona hægt og rólega í ljós. Eftir hverja önn sá ég náttúrlega hvað ég fékk. Ég ætlaði mér alltaf að standa mig eins vel og ég gæti þó að það hafi kannski ekki beint verið ætlunin að fá hreina tíu. En það varð bara niðurstaðan þegar ég gerði mitt besta,“ segir Ísak. 

Ísak varð dúx á stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands vorið 2016 og segist hafa verið vel undirbúinn undir háskólanám. Hann hóf þó nám í verkfræðilegri eðlisfræði við háskólann áður en hann skipti yfir í hagnýtta stærðfræði. 

„Ég var alveg frekar lengi að finna hvað mig langaði að læra. Ég fór á Ólympíuleikana í eðlisfræði fyrir háskólann og hef alltaf haft mikinn áhuga á eðlisfræði svo ég byrjaði í verkfræðilegri eðlisfræði. Eftir því sem ég lærði meira í háskólanum fann ég hvernig áhuginn á stærðfræði varð meiri. Ég fékk svo bara metið áfangana úr verkfræðilegri eðlisfræði þegar ég skipti eftir eitt námsár. Það gekk upp þar sem fyrsta árið í verkfræðilegri eðlisfræði og hagnýttri stærðfræði er svipað. Sömu grunnáfangar eru teknir,“ segir Ísak. 

Góður í að taka próf

Ísak segist alla tíð hafa átt auðvelt með nám og að stærðfræði liggi vel fyrir sér. 

„Ég hugsa að það sé blanda af því að ég eigi frekar auðvelt með nám yfirhöfuð og þá stærðfræði sérstaklega, og svo bara læri ég mikið og var í góðum hópi fólks sem ég gat rætt við um vandamálin sem lágu fyrir. Svo er ég frekar góður í að taka próf, en ég reyndi bara aðallega að gera mitt besta og hafði þetta markmið svo ég lagði alveg ágætlega mikinn metnað í þetta,“ segir Ísak, spurður um lykilinn að árangri hans.

Hann hefur fengið inngöngu í Oxford-háskóla í Bretlandi í meistaranám og hyggst flytja þangað í haust. 

„Ég er að fara í áframhaldandi nám í stærðfræði í Oxford núna í haust. Þetta er svona vísindatengd stærðfræði, ég ætla mér líklegast að læra meiri líkinda- og tölfræði. Ég veit ekki alveg hvernig þetta er úti en maður reynir náttúrlega að gera sitt besta. Byrja sterkt og kynnast aðstæðum og síðan sér maður bara hvernig gengur.“

mbl.is