Lokað þinghald í manndrápsmáli í Sandgerði

Dómari féllst á beiðni verjanda ákærða að þinghald í málinu …
Dómari féllst á beiðni verjanda ákærða að þinghald í málinu verður lokað. mbl.is/Ófeigur

Karlmaður á sextugsaldri, sem er ákærður fyrir að hafa orðið eiginkonu sinni að bana á heimili þeirra í Sandgerði í lok mars, neitaði sök við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjaness í gær. Þetta staðfestir Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari í samtali við mbl.is, en Fréttablaðið greindi fyrst frá í morgun. 

Dómari féllst á beiðni verjanda ákærða að þinghald í málinu verður lokað. Farið var fram á lokað þinghald á grundvelli a-liðar ákvæðis 10. greinar sakamálalaga þar sem segir að þinghald geti farið fram fyrir luktum dyrum til hlífðar sakborningi, brotaþola, vandamanni þeirra, vitni eða öðrum sem málið varðar. Ákæruvaldið gerði ekki athugasemd um að þinghaldið yrði lokað að sögn Kolbrúnar. 

Eig­in­kona manns­ins lést á heim­ili þeirra hjóna í Sand­gerði 28. mars en maður­inn var ekki hand­tek­inn fyrr en 2. apríl eft­ir að krufn­ing leiddi í ljós að and­lát henn­ar hefði lík­lega borið að með sak­næm­um hætti. Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan og var ákæra á hendur honum gefin út í síðasta mánuði. Grunur er um heimilisofbeldi. 

Kolbrún býst við að aðalmeðferð málsins fari fram í ágúst.

mbl.is