Léttir að ljúka sex mánaða leit

Leit hófst kl. 9 í morgun og lauk um hádegi. …
Leit hófst kl. 9 í morgun og lauk um hádegi. Góðar aðstæður til leitar hafa ekki fengist undanfarið en leitin skilaði loks árangri í dag. Ljósmynd/Landsbjörg

Leit sem hefur staðið yfir með hléum frá því í lok desember lauk áðan þegar björgunarsveitarmenn fundu lík Andris Kalvans við Illagil í Haffjarðardal í hádeginu í dag. Andris er sextugur Lithái sem var búsettur á höfuðborgarsvæðinu.

Hann sást síðast 28. desember 2019 en var fyrst saknað 30. desember, þegar bíll hans hafði staðið yfirgefinn við Heydalsveg í tvo eða þrjá daga. Var þá haft uppi á vinnuveitanda Andris, en hann átti ekki fjölskyldu eða aðstandendur hér á landi.

Aðstæður til leitar hafa verið erfiðar á svæðinu síðustu mánuði en Andris var þó talinn af fyrir nokkru. Ekki var því um lífsbjargandi leit að ræða í dag, en hann fannst eftir að hafa legið undir snjó. Við krufningu á eftir að koma betur í ljós hvað olli dauða mannsins.

Gott að fá endi á málið

Einar Strand, formaður svæðisstjórnar Landsbjargar á Snæfellsnesi, segir það létti að vera búinn að finna manninn. „Það er mjög gott að fá endi í þetta, ekki bara fyrir aðstandendur heldur líka bara fyrir björgunarsveitirnar. Okkur finnst ekki þægilegt að svona fari frá okkur án þess að við getum klárað það en við getum heldur ekki haldið áfram út í hið óendanlega. Ég fann það því á öllum áðan að þeim var létt að þessu máli væri lokið,“ segir hann. 

Um 100 manns úr sveitum víða af landinu tóku þátt í leitinni, sem hófst klukkan 9 í morgun. Aðstæður voru að sögn með besta móti ólíkt því sem verið hefur, en ekki hefur verið unnt að ráðast í víðtækar leitir undanfarið vegna aðstæðna.

mbl.is