Íslenskir frændur í Twin-þáttunum

Gunnar Eiriksson í hlutverki lögregluþjónsins Frank í Lofoten í Twin-þáttunum, …
Gunnar Eiriksson í hlutverki lögregluþjónsins Frank í Lofoten í Twin-þáttunum, sem slegið hafa í gegn víða um heim, og frændi hans Torstein Bjørklund sem einnig lék í Twin, en á þessari mynd í hlutverki sínu sem Beowulf í amerísku þáttunum Once Upon a Time. Ljósmynd/Aðsend/Samsett

Þeir félagar Gunnar Eiriksson og Torstein Bjørklund, sem leika lögregluþjóninn Frank og leikskólastarfsmanninn Henrik í norsku spennuþáttunum Twin, sem farið hafa sigurför víða um heim, eru ekki aðeins frændur heldur eru þeir báðir hálfir Íslendingar, afkvæmi íslenskra mæðra. Brynja Gunnarsdóttir er móðir Gunnars og Torstein er sonur Nönnu Þórunnar Hauksdóttur. Brynja og Torstein eru systkinabörn, en móðurafi Torsteins, Haukur Þorleifsson heitinn, er langafi Gunnars.

Leikararnir eru báðir búsettir í Noregi og hafa lengst af alið manninn í Tromsø, hinni norsku Akureyri. Þeir féllust á að ræða við mbl.is um uppruna sinn, leiklistina, Íslandstenginguna og lífið almennt og reið Gunnar á vaðið.

„Viltu tala íslensku?“

„Viltu tala íslensku?“ spyr Gunnar í upphafi símtalsins og kemur blaðamanni þegar í opna skjöldu. Eitt er að hafa verið búsettur alla ævina í Noregi verandi hálfur Frónbúi og annað að tala reiprennandi íslensku, sem Gunnar vissulega gerir. „Mamma mín er íslensk þótt við búum hérna í Noregi svo ég tala svona sæmilega íslensku,“ segir Gunnar og dregur þar verulega úr, því varla má greina svo mikið sem hreim í mæli hans.

„Ég hef unnið sem leikari síðan 2011, lærði í háskólanum í Verdal í Trøndelag, hann heitir núna Nord en hét HiNT þegar ég var þar, ég hef búið alla mína ævi í Noregi, mamma er sjúkraþjálfari og pabbi er nýkominn á eftirlaun en starfaði í Háskólanum í Tromsø. Afi minn á Íslandi vann sem leikari í smá smá stund og ef þú spyrðir mömmu hvaðan ég hef þetta þá segði hún að það væri frá honum,“ segir Gunnar, en afi hans er Gunnar Már Hauksson sem enn lifir.

Foreldrar Gunnars, Eirik Liland og Brynja Gunnarsdóttir, kynntust í Stúdentakjallara …
Foreldrar Gunnars, Eirik Liland og Brynja Gunnarsdóttir, kynntust í Stúdentakjallara Háskóla Íslands þegar Brynja söng í Háskólakórnum og Eirik nam íslensku fyrir erlenda stúdenta. Kórinn söng fyrir erlendu stúdentana á þessum gamalgróna háskólabar og þar kviknaði neistinn. Ljósmynd/Aðsend

„Ja, við skulum nú sjá hvort ég muni þetta,“ segir leikarinn hugsi, inntur eftir kynnum foreldra hans, en faðir hans er Norðmaðurinn Eirik Liland. „Þau hittust á Íslandi, mamma söng í Háskólakórnum á Íslandi og pabbi var að læra íslensku fyrir útlendinga í Háskóla Íslands. Þau kynntust í Stúdentakjallaranum, rétt fyrir jól, þegar nokkrir félagar úr Háskólakórnum voru fengnir til að syngja íslensk jólalög fyrir útlendingana. Sigrún, sem var kennari þeirra og var auk þess með í háskólakórnum, bað þau svo um að blanda aðeins geði við útlendingana á eftir og mamma tók hana á orðinu,“ segir Gunnar frá.

Hlutverkið í Twin

Hann er elstur þriggja systkina, fæddur 1984. „Ég tala líklega bestu íslenskuna af okkur, eða gerði það alla vega fyrst,“ segir Gunnar og hlær, „núna býr systir mín til dæmis í Reykjavík og hún talar málið líklega betur en ég núna,“ en systirin er fædd árið 1993 og bróðir Gunnars 1988.

„En íslenska var fyrsta málið mitt áður en ég byrjaði í skóla, mamma talaði íslensku við mig og gerir enn og íslenska var reyndar málið sem var talað á heimilinu, þó að við krakkarnir svöruðum yfirleitt á norsku,“ segir hann og játar að hann tali norsku með Tromsø-framburði sem blaðamaður þekkir vel frá sínum fyrsta yfirmanni í Noregi fyrir margt löngu.

„Mér finnst mjög skrýtið þegar ég er að tala við Íslendinga að tala norsku eða ensku, svo þá tala ég bara íslensku eins og ég get,“ segir Gunnar.

Talið berst að leiklistinni. Hvernig kom það til að Gunnar fékk hlutverkið sem lögreglumaðurinn Frank í Twin-þáttunum sem fjöldi Íslendinga hefur nú staðið á öndinni yfir og skarta Game of Thrones-leikaranum Kristofer Hivju í hlutverki eineggja tvíbura, þó mjög ólíkra, eins og Morgunblaðið fjallaði um fyrr í sumar?

„Það var verið að gera þennan þátt fyrir norðan [í Lofoten] og þeir voru að leita eftir leikurum frá Norður-Noregi. Ég var þá að vinna við leikritið Gjengangere [Afturgöngur] eftir Henrik Ibsen við Riksteateret. Þá var hringt í mig frá umboðsskrifstofu og ég spurður hvort ég hefði smátíma. Ég var þá einmitt heima í tvo daga milli verkefna og fékk handritið sent,“ segir Gunnar.

Hann fékk þó aðeins hluta handritsins, tvær senur, og gróflegt ágrip af efni þáttanna. „Ég var svo bara að æfa mig hérna heima fyrir framan kærustuna mína og hún sagði mér þá að ég væri svo alvarlegur, hún hélt að þetta væru gamanþættir. „Nei nei, þetta er drama,“ sagði ég og vissi samt í raun ekki neitt. Svo fór ég í prufu og lék mitt hlutverk þar, gerði það alvarlega, og leikstjórinn sagði bara „takk, takk“ og svo heyrði ég ekkert í heilan mánuð, þetta tók langan tíma,“ segir Gunnar frá.

Gunnar ásamt „dóttur sinni“ úr Twin-þáttunum, sem hin kornunga leikkona …
Gunnar ásamt „dóttur sinni“ úr Twin-þáttunum, sem hin kornunga leikkona Sara Kanck túlkaði af festu og listfengi. Ljósmynd/Aðsend

Í millitíðinni fékk hann svo tilboð frá norsku leikhúsi um að leika Rómeó í hinu annálaða Shakespeare-verki Rómeó og Júlíu. „Já, ég verð að taka þessu, hugsaði ég,“ rifjar Gunnar upp, en bað leikhúsið þó að veita sér stuttan umhugsunarfrest á meðan hann hringdi í umboðsskrifstofuna sem hafði með Twin-þættina að gera. „„Bíddu, ekki taka þessu strax, bíddu í klukkutíma,“ var mér sagt þar og örskömmu síðar hringdi leikstjórinn í mig og sagði mér að hlutverkið væri mitt ef ég vildi, einmitt af því að ég hefði verið sá eini sem var svo rosalega alvarlegur í prufunni,“ segir Gunnar og hlær, en eins og þeir kannast við sem séð hafa Twin-þættina stökk persónu hans, Frank lögreglumanni, varla bros í þáttunum.

Forboðið að taka lit

Útitökurnar fyrir Twin fóru fram í rómuðum fjallasal Lofoten sem hlotið hefur enn meiri heimsathygli en áður síðan þættirnir voru sýndir, en flest inniatriðin voru tekin í höfuðstaðnum Ósló sem kostaði töluverðan þvæling upp og niður þá lengju sem Noregur er.

„Það var líka svo rosalega heitt þetta sumar,“ segir Gunnar og vísar til hitabylgjusumarsins 2018 í Skandinavíu. „Við hófum tökurnar í lok febrúar og þá var ég búinn að vera í Tromsø í fjóra mánuði. Ég á íslenska mömmu og pabba frá Norður-Noregi og ég er ekkert sérstaklega brúnn, ég er eiginlega bara hvítur,“ segir Gunnar með áherslu á síðasta orðið og hlær.

Hann hafi því staðið frammi fyrir þeirri áskorun, sumarið sem hitastigið í Ósló náði tæpum 36 gráðum þegar mest var, að þurfa að halda sér næpuhvítum til að gjörbreyta ekki um útlit í þáttunum, sem gerast á örfáum dögum. „Sú sem sá um förðunina sagði við mig að ég mætti alls ekki breyta meira um lit og svo kom sumarfríið. Ég gekk um með derhúfu, kappklæddur og smurður þykku lagi af sólarvörn,“ rifjar Gunnar upp, og hafði erindi sem erfiði, eins og þeir sem séð hafa Twin geta líklega vottað, hann var nákvæmlega eins alla átta þættina.

Eitthvað stórt á leiðinni

Hvað með að starfa með stórstirninu rauðhærða, Kristofer Hivju, sem lítur hálfvegis út eins og bergrisi genginn út úr sæhömrum?

„Það var mjög fínt. Hann var náttúrulega með í að velja mig í mitt hlutverk og þetta var líka verkefni sem hann og annar leikstjórinn [Kristoffer Metcalfe] voru búnir að vinna með í nokkur ár,“ útskýrir Gunnar. Hann hafi þó starfað með Hivju áður, sem var á leikhúsfjölunum árið 2011, í leikriti sem Gunnar túlkaði allah í, en sá rauðhærði lék guð.

Gunnar fékk aðeins tvær senur af handriti Twin-þáttanna sendar og …
Gunnar fékk aðeins tvær senur af handriti Twin-þáttanna sendar og vissi ekkert hvað hann var að fara að sækja um. Kærastan hans þóttist þess fullviss að um gamanþætti væri að ræða en Gunnar sagði „Nei nei, þetta er drama“, var grafalvarlegur í áheyrnarprufunni og rann eins og bráðið smjör inn í hlutverkið. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta var rétt áður en hann fékk hlutverkið í Game of Thrones og ég man að þegar við vorum ekki á sviðinu þá var hann alltaf í símanum eða tölvunni og sagði við mig að hann grunaði að nú væri eitthvað stórt á leiðinni að gerast, hann vissi bara ekki hve stórt,“ segir Gunnar, en í framhaldinu túlkaði Kristofer Hivju persónuna Tormund Giantsbane í þriðju til áttundu röð þáttanna. „Ég var þarna þegar þetta byrjaði og svo var auðvitað mjög skemmtilegt að hitta hann aftur eftir þetta allt saman,“ segir Gunnar og kveður mótleikara sinn fara sérstakar leiðir í leiklistinni.

„Hann er í raun eins og barn ef svo má segja, hann er alltaf leitandi og alltaf líka leikandi, að reyna fyrir sér með mismunandi persónur. Eins vill hann alltaf fá að heyra hugmyndir annarra og spyr mikið hvað manni finnist um hina eða þessa nálgunina, hann er mjög prófessjónal. Við gátum gleymt alveg stað og stund við tökurnar þarna í Lofoten, við vorum bara að leika.

Hivju hafi þó ekki farið varhluta af fyrri frægðarverkum, ekki einu sinni norður í Lofoten. „Ég man þegar við vorum að taka atriðið þar sem ég hitti hann og veit ekki betur en að ég sé að tala við tvíburabróður hans,“ segist Gunnari frá. „Þá var þarna hópur ferðamanna frá Japan og kona nokkur í hópnum var svo frá sér numin þegar hún sá hann að við þurftum að stöðva tökurnar. Hún linnti ekki látum.

Að lokum sögðum við henni að við ættum svona klukkutíma eftir, þá færum við þangað og svo kæmum við keyrandi hérna fram hjá eftir rúman klukkutíma. Og hún beið í klukkutíma við veginn bara til að sjá hann keyra fram hjá,“ segir Gunnar af atburðum þess tökudags. „Og þetta var svona í fyrsta sinn sem við hugsuðum út í það að hann er auðvitað stjarna, menn voru bara ekkert að velta því fyrir sér þarna í Lofoten, við vorum úti í eyju og það var ekkert fólk þarna,“ segir leikarinn.

Gunnar Eiriksson og Kristofer Hivju við vinnslu Twin-þáttanna. Bjór, brimbretti, …
Gunnar Eiriksson og Kristofer Hivju við vinnslu Twin-þáttanna. Bjór, brimbretti, sófi og gítar. Þarf nokkuð annað í lífinu? Ljósmynd/Eirik Evjen/Lars Olav Dybvig

Hvað þykir Gunnari mest gefandi við leiklistina sem hann hefur stundað í tæpan áratug?

„Ég hef mjög gaman af að koma fólki til að hlæja,“ svarar Gunnar eftir stutta umhugsun, „og ég fékk að gera það aftur núna í sumar, Twin voru auðvitað rosalega alvarlegir þættir,“ segir hann, en ferill Gunnars hefur verið mun meira á sviði en fyrir framan myndavél. „Ég fer alltaf að horfa á sjálfan mig eins og ég sé fyrir utan sjálfan mig, og alltaf að hugsa „hvað er það sem fólk sér núna, hvernig sér það mig núna?“ og einmitt núna hefur mig vantað eitthvað kómískt, bróðir minn er allur í dramatíkinni, hann er rithöfundur,“ segir Gunnar og hlær, en bróðirinn er Óðinn Eiriksson (Odin Eiriksson í Noregi að sjálfsögðu).

Á leið í Þjóðleikhúsið

Systir þeirra, Eva Eiriksdottir, sú eina sem búsett er á Íslandi, hefur hins vegar kosið sér annað lifibrauð en bræðurnir. „Hún er gerólík okkur, hún vinnur á spítala og er í björgunarsveit á Íslandi og var líka alltaf miklu meira í íþróttum en við,“ játar Gunnar um þriðja systkinið.

Sjálfur er hann þó töluvert á Íslandi og reyndar á leið þangað á næstunni, enda kominn með verkefni í Þjóðleikhúsinu þar sem leikrit eftir hann verður sett upp á næsta ári, en Gunnar fór nýlega með sigur af hólmi í samkeppni um handrit að barnaleikriti.

„Ég bjóst nú ekki við neinu þá, en sendi inn handrit að gamni og svo hringdi Magnús Geir [Þórðarson þjóðleikhússtjóri] og sagðist hafa verið að lesa handritið og ef það væri í lagi mín vegna hefði leikhúsið áhuga á að fara lengra með verkefnið og það var svo sannarlega í lagi fyrir mig,“ segir handritshöfundurinn og leikarinn Gunnar Eiriksson frá Tromsø og Íslandi sem er á leiðinni með verk á fjalir Þjóðleikhússins árið 2021.

Þorsteins þáttur stangarhöggs

„Mamma talar alltaf íslensku við mig og ég svara henni á norsku, þannig hefur það verið síðan ég var lítill,“ segir Torstein Bjørklund þegar sögunni víkur til hans, frænda Gunnars sem fór með hlutverk leikskólastarfsmannsins hressa, Henriks, í Twin-þáttunum.

Torstein, eða Þorsteinn eins og hann hefur reyndar skrifað undir alla tölvupósta og SMS-skeyti til blaðamanns fram að viðtali, svo látum þar við standa, er þó líklega þekktari fyrir hlutverk sín í bandarísku ævintýraþáttunum Once Upon a Time, þar sem hann leikur persónuna Beowulf, eða Bjólf eins og Íslendingar myndu líkast til ósjálfrátt nefna, og norsku spennuþáttunum Kampen om tungtvannet, sem fjalla um sögulegt skemmdarverk norsku andspyrnuhreyfingarinnar undir hernámi nasista í síðari heimsstyrjöldinni.

Félagarnir „í karakter“, eins og sagt er, við gerð Twin-þáttanna …
Félagarnir „í karakter“, eins og sagt er, við gerð Twin-þáttanna í ægifagurri náttúru Lofoten sem í kjölfar þáttanna hefur öðlast enn meiri heimsfrægð en áður. Ljósmynd/Eirik Evjen/Lars Olav Dybvig

Þorsteinn hefur þó varið drjúgum hluta ferils síns á sviði, eins og Gunnar frændi hans, svo sem við Hålogaland-leikhúsið í heimabænum Tromsø þar sem þeir störfuðu á tímabili báðir þótt Þorsteinn segi þá reyndar aldrei hafa komið fram í sömu verkunum. „Ja, og þó. Ég var reyndar einu sinni með hlutverk sem ég þurfti að bakka út úr með hraði vegna sjónvarpsþátta sem ég var að fara að leika í og þá hljóp Gunnar í skarðið og tók við hlutverkinu, svo við höfum svona nánast verið í sama verkinu,“ segir Þorsteinn kankvís. Hann er vel mæltur á íslenska tungu en þykir þó þægilegra að taka viðtalið á norsku sem er auðsótt mál.

Leiklistin heillaði frá blautu barnsbeini

Móðir Þorsteins er sem fyrr segir Nanna Þórunn Hauksdóttir, en faðir hans er Norðmaðurinn Ivar Bjørklund. Þau eru nú bæði á eftirlaunum en kenndu áður við Háskólann í Tromsø, Nanna á heilbrigðisvísindasviði en maður hennar var prófessor í mannfélagsfræði. „Þegar ég er á Íslandi tekur það mig oftast eina eða tvær vikur að ná málinu ágætlega, ég er bara ekkert vanur að nota íslensku sjálfur, ég kann bara það sem ég kalla „mömmu-íslensku“,“ segir Þorsteinn og hlær, „orðaforðinn er allt of lítill hjá mér.“

Þorsteinn í hlutverki norska andspyrnumannsins Arne Kjelstrup í þáttum norska …
Þorsteinn í hlutverki norska andspyrnumannsins Arne Kjelstrup í þáttum norska ríkisútvarpsins NRK, Kampen om tungvannet, sem segja af einu annálaðasta afreki norsku andspyrnuhreyfingarinnar í síðari heimsstyrjöldinni, skemmdarverkum á þungvatnsverksmiðjunni í Vemork sem nasistar ásældust mjög. Ljósmynd/Aðsend

Þeir Gunnar ólust upp saman í Tromsø og er skammt á milli þeirra í aldri, Þorsteinn fæddur 1988 og frændi hans 1984. Þorsteinn segir leiklistina hafa heillað hann frá blautu barnsbeini og hafi hann snemma þyrst í að reyna fyrir sér í faginu.

Hann sótti sér menntun við Liverpool Institue of Performing Arts, eða LIPA, í Liverpool, sem Bítillinn Sir James Paul McCartney stofnaði reyndar fyrir um aldarfjórðungi, en auk þess nam Þorsteinn við Listaháskólann í Ósló og lauk námi sínu þar árið 2013.

Þorsteinn er nú búsettur í höfuðstaðnum og sinnir þar ýmsum verkefnum, hvort tveggja við þáttagerð og leikhús, en hann hefur í auknum mæli fengist við leikstjórn síðustu misseri.

„Þetta var bara áheyrnarprufa eins og í svo mörgu öðru,“ segir Þorsteinn um Twin-þættina sem hér hafa verið til umræðu, enda öðrum þræði kveikja viðtalsins fyrir utan frændsemi og þjóðerni þeirra leikaranna. Mörg önnur járn hafi verið í eldinum á þeim tíma og hlutverkið auk þess bara smáhlutverk.

Hyggst mæta á Iceland Airwaves

„Núna er ég farinn að leika miklu minna og leikstýra meira,“ segir Þorsteinn þótt hann taki að sér smáhlutverk inn á milli. „Ég er að gera sjónvarpsþætti núna,“ segir hann ábúðarfullur, „þeir heita „Basic Bitch“,“ upplýsir leikstjórinn og segir þar um að ræða þætti í léttum dúr um fjórar stúlkur sem leigja saman í Tønsberg, sem er skammt frá Ósló og reyndar talinn elsti bær Noregs.

Þorsteinn segir almennt ganga ágætlega að hafa leiklistina sem lifibrauð í Noregi. „Já, þetta gengur bara fínt, ég get ekki kvartað. Auðvitað er maður alltaf „freelance“ og þetta getur auðvitað verið upp og niður, en ég hef í raun verið mjög heppinn með verkefni, hvort tveggja við leik og leikstjórn,“ segir hann.

Þorsteinn í Grikklandi við tökur á auglýsingu fyrir Norska getspá, …
Þorsteinn í Grikklandi við tökur á auglýsingu fyrir Norska getspá, eða Norsk tipping, sem hann reyndar leikstýrði sjálfur. Ljósmynd/Aðsend

Íslendingurinn hálfi segist ekki koma oft til Íslands þrátt fyrir upprunann, síðast hafi hann verið á landinu árið 2017 og sé auðvitað allt of langt um liðið. „En ég ætla að mæta á Iceland Airwaves [tónlistarhátíðina] núna í ár,“ játar leikstjórinn til úrbóta.

Spurður út í hvað framtíðin beri í skauti sér segir Þorsteinn að vandi sé um slíkt að spá. „Ég bara veit það ekki, ég reikna með að færa mig meira yfir í leikstjórnina, mér finnst hún athyglisverður vettvangur, en svo getur auðvitað allt gerst, þannig er lífið,“ segir Torstein Bjørklund, leikari, leikstjóri og hálfur Íslendingur í Noregi, að skilnaði.

Þorsteinn í hlutverki sínu í kvikmynd Anders Elsrud Hultgreen, Morgenrøde, …
Þorsteinn í hlutverki sínu í kvikmynd Anders Elsrud Hultgreen, Morgenrøde, frá 2014, sem tekin var á Íslandi en sögusviðið er Noregur eftir hamfarir sem þurrkuðu nær út mannkynið. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert