Var staddur í skýjunum

„Það er svo mikið frelsi sem fylgir þessu. Það verður …
„Það er svo mikið frelsi sem fylgir þessu. Það verður heldur aldrei þreytt að horfa yfir fallega landið okkar,“ segir Jónas Sturla Sverrisson í fisvélinni sem hann smíðaði sjálfur. mbl.is/Ásdís

Eftir taugatrekkjandi flugferð þar sem blaðamaður var fenginn til að fljúga fisvél, bauð Jónas Sturla, formaður Fisfélags Reykjavíkur, upp á kók og prins í húsakynnum félagsins á Hólmsheiði. Jónas vinnur alla jafna við tölvu- og öryggismál, en er mikill áhugaflugmaður með fjórtán ára flugreynslu. Vélin sem hann flýgur flokkast sem fis og er afar lítil og létt og má aðeins vera 450 kíló með öllu; bensíni, farangri og tveimur, helst grannvöxnum, farþegum. 

Sextán mínútna stress

Það var sól í heiði daginn sem Jónas bauð blaðamanni í flugferð á fisvélinni sinni. Eftir að hafa komið sér inn í afar lítinn flugstjórnarklefa keyrði Jónas vélina út á grasbraut og örskotsstundu síðar svifum við yfir borgina í átt að firðinum kenndan við hvali. Fjörðurinn var fallegur í sólinni og það glitraði á sjóinn. Flogið var að hvalstöðinni og þar lenti Jónas á veginum eins og ekkert væri og tók svo aftur á loft.

„Við lendum vélinni og skiptum um sæti og þú flýgur henni svo,“ segir Jónas og blaðamaður þorði ekki annað en að kyngja, kinka kolli og samþykkja það, en innst inni hugsaði hann hvað í ósköpunum hann væri búinn að koma sér út í.

Jónas gat sem betur fer gripið í taumanna ef illa færi í þessum fyrsta flugtíma blaðamanns sem hélt ofurfast í stýrið og beygði til vinstri þegar Jónas sagði hægri. Allt fór þó vel að lokum og í sameiningu var vélinni lent heilu og höldnu eftir sextán langar og stressandi mínútur. Jónas var að sjálfsögðu sallarólegur enda var engin hætta á ferðum.

Handbókin á einhvers konar ensku

Á jörðu niðri gátum við svo spjallað og Jónas byrjar á að segja frá vélinni.
„Vélin mín er ítölsk og heitir Savannah S en hér á landi eru núna til sjö eða átta svona vélar. Við smíðuðum hana sjálfir,“ segir Jónas, en hann á hana í félagi við tvo vini sína.
„Hún kemur í flötum pakka, eins og IKEA-skápur. Svo fylgir með handbók og maður byrjar bara á blaðsíðu eitt,“ segir hann og brosir.

Úsýnið var dásamlegt þennan sumardag þegar blaðamanni var boðið í …
Úsýnið var dásamlegt þennan sumardag þegar blaðamanni var boðið í flug. mbl.is/Ásdís

„Þetta tók átta hundruð tíma en þar af vorum við tvö hundruð tíma að leita að verkfærunum af því maður týnir þeim alltaf,“ segir hann og hlær. 

„Svo fara hundrað tímar í að fá heimsóknir vina sem vilja skoða og fá kaffi. Það var mjög gaman að smíða hana og það fylgir allt með í kassanum nema málningin og talsstöðin. Það er búið að skera allt út og bora öll göt. Handbókin er á einhvers konar ensku en það er Ítali sem skrifar hana og ekki alltaf sem við skildum hvað hann var að meina. En þetta reddaðist allt saman,“ segir hann kíminn.

Á kafi í skýjum

Hefurðu lent í einhverju óþægilegu atviki?

„Já, og það er gott að tala um það. Ég var að fara frá Vestmannaeyjum en þar á flugvellinum er maður í smá bala. Ég sá bara heiðbláan himin og heyrði það úr flugturninum að brautin væri auð og ég mætti taka af stað. Ég fer af stað og upp og um leið og ég kem upp og sé yfir hæðina sé ég að Heimaklettur er að hverfa í skýjabakka. En ég sé að það er heiðskírt uppi á meginlandi,“ segir hann.

„Þá tók ég verstu ákvörðun sem flugmenn geta tekið, að fara til að vera ekki veðurtepptur. Ég hefði átt að lenda og bíða af mér veðrið en ég hugsaði að ég vildi komast heim. Ég hugsaði að ég færi hraðar en skýjabakkinn og myndi ekki lenda í honum. En á mjög stuttum tíma var ég kominn á kafi í skýin. Þá sér maður ekkert og það er ekkert viðmið til að sýna hvernig vélin snýr. Það voru engir mælar í vélinni aðrir en þeir sem sýna hraða og hæð. Ég var ekki með eins og ég er með í þessari nýju vél tæki sem sýnir gervisjóndeildarhring, en þá sér maður hvernig vélin hallar. Ég var með pínulítið GPS-tæki á mér og hafði stillt inn á það flugvöllinn á Bakka. Ég var þarna staddur í skýjunum og það er hávaðarigning og rok og læti. Ég sá ekki neitt og maður hefur enga tilfinningu fyrir því hvernig maður snýr. Það hverfur öll þannig tilfinning,“ segir hann og bætir við að hann hefði þess vegna geta verið að fljúga á hvolfi eða á hlið, hann hefði ekki fundið það.

Jónas hefur flogið físvélum í fjórtán ár og veit fátt …
Jónas hefur flogið físvélum í fjórtán ár og veit fátt skemmtilegra. Hann smíðaði sjálfur vélina sem kom til landsins í flötum kössum. mbl.is/Ásdís

„Þegar sjónin hverfur þá missir maður alla tilfinningu fyrir öðru. Ég gríp í GPS-tækið og átta mig á því að ég er ekki að fara í rétta átt og hef þá farið í hring. Maður getur farið í hringi án þess að finna það, því þegar það er 1G-þrýstingur á manni þá missir maður tilfinningu fyrir hvað snýr upp og hvað niður. Maður trúir því ekki hvernig maður missir alla tilfinningu.“

Jónas ákvað þá að sleppa stýrinu til þess að vélin myndi sjálf rétta sig af, en þessi gerð af vél gerir það þótt það sé ekki endilega reglan með allar vélar.

„Hún gerði það og ég flaug svo eftir GPS-tækinu. Ég var í tæpar átta mínútur inni í skýinu. Ég þorði ekki að fara niður því ég vissi ekki hvað ég væri nálægt sjónum. Þegar ég kom heim og fór að skoða leiðina sem ég hafði farið sá ég að ég hafði verið kominn í spíral og vélin hafði farið í þrjá hringi, án þess að ég hefði hugmynd um það,“ segir hann en Jónas lenti heilu á höldnu á velli félagsins við Úlfarsfell, náfölur en reynslunni ríkari.

Jónas flaug inn í Hvalfjörð sem skartaði sínu fegursta.
Jónas flaug inn í Hvalfjörð sem skartaði sínu fegursta. mbl.is/Ásdís

„Þetta voru mistök; röng ákvarðanataka. Ég hef notað þessa sögu hér á fundum til að segja mönnum hvað getur gerst, af því þetta er algengasta ástæða fyrir dauðaslysum í almannaflugi. Ég veit ekki hvernig hefði farið ef ég hefði ekki verið með þetta GPS-tæki. Það var eiginlega mesta sjokkið að skoða leiðina eftir á.“

Mikið frelsi sem fylgir

Í Fisfélagi Reykjavíkur eru 250 manns en nýlega var haldið þar námskeið og bættust þá 24 í hópinn.

Spurður um hvað fólk þarf að gera til að komast í klúbbinn svarar Jónas: „Það eru námskeið á vorin í svifvængjunum og þá fá menn lánaða vængi en síðan kaupa menn sér vængi ef þeir vilja halda áfram. Það hefur verið erfiðara í mótorfluginu því fólk þurfti að eiga hlut í vél. En núna í vor hefur fólk geta komið og lært á vél sem við leigðum. Það er að breyta miklu greinilega og þetta spyrst út. Ef þú kannt ekkert að fljúga er þetta kostnaður upp á þrjú til fjögur hundruð þúsund, með öllu. Að taka tíma, leiga vélina og fá prófið. Þá geturðu séð hvort þér finnst þetta gaman og mögulega keypt þá hlut í vél. Okkur finnst það mjög skrítið ef þér finnst þetta ekki gaman,“ segir Jónas og brosir.

„Það er svo mikið frelsi sem fylgir þessu. Það verður heldur aldrei þreytt að horfa yfir fallega landið okkar.“

Mælaborðið er frekar fábrotið í fisvélinni hans Jónasar en hefur …
Mælaborðið er frekar fábrotið í fisvélinni hans Jónasar en hefur allt sem þarf. mbl.is/Ásdís


Ítarlegt viðtal er við Jónas í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Landið úr lofti er ægifagurt.
Landið úr lofti er ægifagurt. mbl.is/Ásdís
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert