Þórólfur tilkynnir mögulega um undanþágur

mbl.is/Kristinn Magnússon

Sóttvarnalæknir ætlar mögulega að tilkynna um undanþágur frá skimun við komuna til landsins á upplýsingafundi almannavarna á morgun, samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. 

RÚV greindi frá því í kvöldfréttum sínum að Þjóðverjar og Norðurlandabúnar, að Svíum undanskildum, myndu að öllum líkindum sleppa við skimun samkvæmt nýjum lista yfir örugg ríki sem Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir ætlar sér að kynna á næstu dögum. 

Með þessari aðgerð myndi þeim sem þurfa að fara í skimun fækka en eins og áður hefur verið greint frá er greiningargeta sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans takmörkuð við 2.000 sýni frá landamærunum og því þarf að takmarka fjölda þeirra sem hingað til lands koma.

Hingað til hafa Færeyingar og Grænlendingar verið þeir einu sem sleppa við skimun en Þórólfur á von á því að hann geti kynnt uppfærðan lista í vikunni. 

Þórólfur hefur áður sagt í samtali við mbl.is að þrýst sé á að fleiri ferðamönnum en 2.000 verði hleypt inn í landið.

mbl.is