Ákvörðun ÍE ekki tilefni til að stíga til baka

„Mínar tillögur miðast við heilsufarið og áhættur af veirunni. Það …
„Mínar tillögur miðast við heilsufarið og áhættur af veirunni. Það hefur verið stjórnvalda að taka ákvarðanir,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir, spurður hvort stjórnvöld þrýsti á áframhaldandi skimanir í stað sóttkvíar vegna efnahagslegra sjónarmiða. mbl.is/Árni Sæberg

Hætta er á því að falskar neikvæðar niðurstöður komi upp þegar tíu sýni eru prófuð samtímis og hinir sýktu eru með mjög lítið af veirunni í sér, að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. Sýkla- og veirufræðideild Landspítalans ætlar að viðhafa þá aðferð eftir að Íslensk erfðagreining hættir að greina sýni á þriðjudag. 

Þórólfur segir aðspurður að ákvörðun Íslenskrar erfðagreiningar gefi ekki tilefni til að Íslendingar stígi skref til baka og sendi öll í fjórtán daga sóttkví við komuna til landsins. 

„Þær rannsóknir sem hafa verið gerðar á því erlendis að slá sýnum saman sýna að það er hætta á því að þessi aðferð geti misst af greiningu á einstaklingum sem eru með mjög lítið af veiru í sér þegar sýni er tekið. Að öllu jöfnu þá ætti þetta að vera nokkuð öruggt en þetta er ekki eins góð nálgun og aðferðafræði og við vorum að beita þegar við greindum sýni frá hverjum og einum,“ segir Þórólfur. 

„En það eru margar þjóðir sem nota þetta, til dæmis Þjóðverjar. Ég held að við séum alveg á ásættanlegum mörkum með þetta.“

Ekki komin á hálan ís

Með því að slá saman sýnum og prófa tíu í einu getur Landspítalinn greint 2-3.000 sýni daglega. Á sama tíma mega 2.000 manns koma til landsins daglega og þarf að skima þá alla, auk þess að skima þarf Íslendinga tvisvar frá og með 13. júlí. Farþegafjöldi hefur hingað til ekki náð 2.000 daglega en verið býsna nálægt því. 

Erum við ekki komin á hálan ís þegar farþegafjöldinn er orðinn mjög nærri 2.000? 

„Ef við teljum að hámarkið sé 2.000 og við erum að fá 2.000 þá erum við ekki komin á hálan ís. Þá erum við innan þeirra marka sem búið er að setja,“ segir Þórólfur sem telur þó ekki hægt að rýmka takmörkun á því hversu margir koma hingað til lands daglega í nánustu framtíð, þrátt fyrir þrýsting um slíkt. Fyrst þurfi að komast reynsla á nýtt fyrirkomulag. Aðspurður segir Þórólfur að það sé á vegum flugvallaryfirvalda á Keflavíkurflugvelli að sjá til þess að farþegafjöldinn fari ekki yfir 2.000. 

Fyrri aðferð öruggari en ný aðferð innan ásættanlegra marka

Spurður hvort stjórnvöld þrýsti nú á að skimunum sé haldið áfram og ekki sé farið aftur í fyrirkomulag sem felur í sér fjórtán daga sóttkví af efnahagslegum ástæðum segir Þórólfur:

„Mínar tillögur miðast við heilsufarið og áhættur af veirunni. Það hefur verið stjórnvalda að taka ákvarðanir. Mínar tillögur hafa verið á þá leið að miðað sé við 2.000 og ég held að það sé ásættanlegt. Það hefur verið þrýstingur og umræða um það að auka þennan fjölda úr 2.000 en ég hef ekki talið það vænlegt á þessu stigi, hvað sem síðar verður.“

Er ákvörðun Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar Erfðagreiningar, ekki tilefni til þess að stíga baka og fara aftur í 14 daga sóttkví fyrir alla sem hingað koma?

„Nei. Vegna þess að við getum annað sama fjölda og við erum að gera núna. Ég tel það innan ásættanlegra marka þó hin aðferðin sem við vorum að beita hafi verið öruggari,“ segir Þórólfur sem tekur fram að samstarfið við Íslenska erfðagreiningu hafi verið gott, rétt eins og samstarf við aðra sem hafa komið að faraldrinum.

ÍE tilbúin í viðræður

Er Íslensk erfðagreining tilbúin í að stökkva inn í ef tilfellum fjölgar mikið? 

„Það hefur ekkert reynt á það enn þá en þeir hafa lýst því yfir að þeir séu tilbúnir til viðræðna og ég held að það sé þá eitthvað sem þurfi að skoða sérstaklega. Það gæti komið að því en það liggur ekki ljóst fyrir,“ segir Þórólfur. 

Að hans mati eru reglur um sóttkví fyrir Íslendinga sem taka gildi 13. júlí næstkomandi mikilvægar. 

„Tilgangurinn með því er að girða fyrir það gat sem er í skimuninni, það er að segja að einstaklingar sem hafa smitast rétt fyrir komuna til Íslands og koma því neikvæðir út úr skimun, að við missum þá ekki út í samfélagið og þeir geti smitað út frá sér.“

„Höldum áfram sama plani“

Spurður hvers vegna reglurnar taki ekki gildi strax segir Þórólfur:

„Það þarf að undirbúa þetta — þetta er heilmikil framkvæmd og til þess að þetta takist vel þurfum við að undirbúa aðila til þess að taka á því svo það virki eins og best verður á kosið.“

Þessar áætlanir eru ekki í uppnámi vegna ákvörðunar Íslenskrar erfðagreiningar um að draga sig út úr skimunum, að sögn Þórólfs. 

„Þessi áform eru bara eins en hins vegar munu sýnin vera rannsökuð á annan hátt en var. Við höldum áfram sama plani.“

mbl.is

Bloggað um fréttina