Dæmdur fyrir að taka sér 22 milljónir eftir mistök banka

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.isÓmar Óskarsson

Karlmaður var í síðustu viku dæmdur í þriggja ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness, en hann var fundinn sekur um umboðssvik og peningaþvætti með því að hafa notfært sér mistök starfsmanns Íslandsbanka þegar yfirdráttarheimild var hækkuð hjá fyrirtæki sem hann stýrði í 26 milljónir í stað 2,6 milljóna. Millifærði maðurinn 22 milljónir af reikningnum og nýtti fyrir sig og fjölskyldu sína.

Samkvæmt dómi héraðsdóms millifærði maðurinn fjármuni á systur sína, mág og föður, en faðirinn er nú látinn. Voru þau einnig ákærð fyrir peningaþvætti í málinu, en sýknuð þar sem ekki þótti nægjanlega sannað að þau hafi gerst sek um það athæfi af ásetningi eða gáleysi.

Maðurinn, Helgi Már Magnússon, neitaði sök í málinu og sagði að hækkunin væri greiðasemi bankans við sig. Fiskvinnslan sem hann rak hafi verið rekstrarhæf þótt reksturinn væri upp og niður. Hafði hann náð samkomulagi um að heimild fyrirtækisins yrði hækkuð í 2,6 milljónir, en fyrir mistök starfsmanns var heimildin hækkuð í 26 milljónir.

Málið uppgötvaðist þremur dögum síðar og var hann handtekinn á fjórða degi. Við húsleit fundust aðeins rúmlega milljón krónur, en maðurinn gaf þær skýringar að hann hefði lagt fjármunina inn á þáverandi sambýliskonu sína, föður, mág og sjálfur tekið út um 7 milljónir. Hafi hann nýtt þá fjármuni til að greiða meðal annars uppsafnaðar skuldir, t.d. við handrukkara. Fyrir dómi kom fram að þau þrjú sem voru sýknuð hafi tekið fjármunina út og afhent Helga í reiðufé.

Helgi er með langa sögu fyrir auðgunarbrot, nú síðast í fyrra og rauf hann með þessum brotum sínum skilorð og var honum dæmdur hegningarauki við fyrri dóm.

mbl.is