Dregur úr vindi og úrkomu

Fyrir hádegi má ætla að dragi úr vindi og úrkomu.
Fyrir hádegi má ætla að dragi úr vindi og úrkomu. mbl.is/Hari

Allhvass vindur hefur verið með suðausturströndinni og á norðanverðum Faxaflóa í nótt og víða rignt með á köflum. Fyrir hádegi má ætla að dragi úr vindi og úrkomu, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Eftir hádegi er spáð norðaustan 3-8 m/s en strekkingin við suðausturströndina eitthvað fram eftir degi. Á Norður- og Austurlandi fer hiti ekki ýkja langt yfir 10 stigin og þar má búast við dálítilli súld með köflum, einkum  framan af deginum, en sunnan heiða verður öllu mildara veður og skúrir seinni partinn. Hæst er spáð 17 stigum á Suðvesturlandi.

Í byrjun næstu viku er norðlæg átt í kortunum, víðast fremur hæg, en sums staðar dálítill strekkingur um austanvert landið, Útlit er fyrir dálitla vætu hér og þar, en þurrt að mestu vestanlands. Um og eftir miðja vikuna eru líkur á hægum vindi og vætu um landið vestanvert, en bjart með köflum eystra.

Á föstudag gera langtímaspár ráð fyrir lægð úr suðri, og ef fer sem horfir gæti sá dagur orðið ansi blautur og vindasamur.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á mánudag:
Norðlæg átt, víða 3-8 m/s, en NV 8-13 við NA-ströndina og einnig SV-ströndina seinnipartinn. Skýjað að mestu með dálítilli vætu og 5 til 10 stiga hita N-lands, annars bjartviðri og hiti 10 til 18 stig.

Á þriðjudag:
Norðvestan 3-10, skýjað að mestu og lítilsháttar væta að V-verðu. Hiti 6 til 16 stig, hlýjast SA-lands.

Á miðvikudag:
Fremur hæg S-læg eða breytileg átt, skýjað með köflum og dálítil væta V-til. Hiti yfirleitt 10 til 15 stig að deginum.

Á fimmtudag:
Fremur hægur vindur framan af, skýjað með köflum og úrkomulítið, en vaxandi SA-læg átt um kvöldið. Hlýnar heldur.

Á föstudag og laugardag:
Útlit fyrir suðaustanátt með rigningu víðast hvar. Hiti 9 til 18 stig, hlýjast V-til á landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert