Benedikt víkur sæti í máli Sveins og Skúla

Sveinn Andri Sveinsson lögmaður, Skúli Gunnar Sigfússon athafnarmaður og Benedikt …
Sveinn Andri Sveinsson lögmaður, Skúli Gunnar Sigfússon athafnarmaður og Benedikt Bogason hæstaréttardómari. Samsett mynd

Benedikt Bogason hæstaréttardómari mun ekki taka sæti í máli þrotabús EK1923 gegn Sjöstjörnunni sem flutt verður fyrir Hæstarétti í haust. Þetta staðfestir hann við mbl.is.

mbl.is sagði um helgina frá því að Heiðar Ásberg Atlason, lögmaður Sjöstjörnunnar, félags athafnarmannsins  Skúla Gunn­ars Sig­fús­son­ar, hefði sent forseta Hæstaréttar bréf þar sem hann krafðist þess að hæfi Benedikts sem dómara yrði skoðað. Vísaði hann til þess að Bene­dikt hafi ný­lega verið í út­skrift­ar­veislu hjá tveim­ur dætr­um skipta­stjóra EK1923, Sveini Andra Sveins­syni. Sagði Heiðar við mbl.is um helgina: „Þú býður ekki kunn­ingj­um í út­skrift­ar­veislu, þú býður vin­um þínum.“

Benedikt vildi ekki tjá sig frekar um ástæður þess að hann tæki ekki sæti í málinu þegar mbl.is leitaði eftir því, en þess má geta að í millitíðinni var Benedikt kjörinn forseti Hæstaréttar.

Fjöldi mála kom upp í tengsl­um við skipti EK1923, sem áður var í eigu Skúla, en það mál sem nú verður tekið fyr­ir í Hæsta­rétti er það langstærsta. Er þar tek­ist á um rift­un á 223 millj­ón­um ann­ars veg­ar og 21 millj­ón hins veg­ar sem Sveinn Andri vildi fá frá fé­lag­inu Sjö­stjörn­unni.

Í héraði hafði Sjöstjarn­an verið dæmt til að greiða þrota­bú­inu báðar upp­hæðirn­ar auk vaxta, sam­tals yfir 400 millj­ón­ir, en Lands­rétt­ur taldi aðeins að greiða ætti lægri upp­hæðina. Var sömu­leiðis felld út kyrr­setn­ing á eign­um sem höfðu tengst greiðslu hærri upp­hæðar­inn­ar. Sveinn Andri áfrýjaði til Hæsta­rétt­ar og samþykkti Hæstirétt­ur mál­skots­beiðnina.

mbl.is