Umboð Guðna rann út á miðnætti

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, greiðir atkvæði á kjördag.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, greiðir atkvæði á kjördag. AFP

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, verður settur í embætti í annað sinn í dag klukkan 15:30. Vegna hertra aðgerða í baráttu við kórónuveiruna verður innsetningarathöfnin með gerbreyttu sniði.

Þegar Guðni var settur í embætti hið fyrra sinn, 1. ágúst 2016, var 231 viðstaddur. Þar af 226 gestir auk handhafanna þriggja og forsetahjónanna. Til stóð að um 80 gestir yrðu núna en vegna tveggja metra reglunnar hefur þeim verið fækkað í 24. Sautján gestir verða í þingsal ásamt handhöfum og forsetahjónum og sjö gestir í hliðarherbergjum, alls 29. Ýtrustu sóttvarna verður gætt og engin handabönd viðstaddra.

Stólum er raðað upp í þingsalnum með tilliti til tvegga …
Stólum er raðað upp í þingsalnum með tilliti til tvegga metra reglunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Guðni er ekki starfandi forseti

Í 6. grein stjórnarskrár Íslands segir: „Kjörtímabil forseta hefst 1. ágúst og endar 31. júlí að 4 árum liðnum.“ Þetta þýðir að umboð Guðna forseta rann út á miðnætti síðastliðnu og er hann því ekki starfandi forseti þegar flestir lesendur fá þetta blað í hendur.

Í 8. grein stjórnarskrárinnar segir að verði sæti forseta lýðveldisins laust skuli forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti hæstaréttar fara með forsetavald. Þessum embættum gegna nú Katrín Jakobsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Þorgeir Örlygsson. Þetta þríeyki boðar til athafnarinnar í dag og stjórnar henni.

Forseti Hæstaréttar lýsir forsetakjöri og útgáfu kjörbréfs. Að því búnu vinnur forsetinn drengskaparheit og síðan fær hann kjörbréfið afhent.

Ríkissjónvarpið sýnir beint frá embættistökunni og hefst útsendingin kl. 15.20 í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert