Þakklátur fyrir bannið

Gunnar Malmquist, einnig þekktur sem Vikingblendz.
Gunnar Malmquist, einnig þekktur sem Vikingblendz. Árni Sæberg

Í Síðumúla 35, nánar tiltekið á hársnyrtistofunni Blondie, má finna einn vinsælasta, ef ekki vinsælasta, rakara landsins. Gunnar Malmquist hefur varla undan að sinna kúnnum, enda einkar fær með rakvélina á lofti.

Gunnar, sem skapað hefur vörumerkið Vikingblendz í kringum þjónustu sína, hefur hingað til verið best þekktur fyrir tilþrif sín á handboltavellinum enda einkar baráttuglaður varnarmaður og lunkinn hornamaður (og nú nýlega miðjumaður). Liðsmenn andstæðinga liðs hans, Aftureldingar, kvíða oft fyrir því að lenda í krumlunum á manninum, sem ég get staðfest að er ekki þægilegt.

Sömu sögu er ekki að segja um þá sem mæta í klippingu til Gunnars. Hann nostrar við þá og sendir út með ferskt „fade“ eins og það er kallað. Þeir hörðustu mæta til Gunnars á tveggja vikna fresti, jafnvel oftar.

Menntunin einhæf

„Þetta byrjar í raun án þess að ég átti mig á því,“ segir Gunnar um upphaf rakaraferilsins. „Ég fatta aldrei að mig langi að verða rakari en öll mín yngri ár var ég alltaf að spá í hárið á mér og vildi alltaf vera með flottustu greiðsluna. Ég hafði alltaf mikla skoðun á hári.“

Meðfram menntaskólagöngu sinni í Verzlunarskóla Íslands starfaði Gunnar á hársnyrtistofunni Modus í Smáralind. „Bara til að hjálpa til; selja vörur, þvo hár og svona,“ segir Gunnar, sem vann þar aðra hverja helgi með náminu. „Eftir Verzló nennti ég ekki að fara í þetta venjulega. Ég nennti ekki að fara í viðskiptafræði, sálfræði eða íþróttafræði.“

Gunnar útskrifaðist úr Verzlunarskólanum 2016 og hóf nám hjá Hárakademíunni 2017 og útskrifaðist þaðan 2018. „Ég ákvað bara að skella mér í þetta því ég vissi að ég kynni alveg helling í þessu fagi. Ég ákvað að fara í Hárakademíuna og prófa þetta og varð bara ástfanginn af faginu.“

Gunnar segir hársnyrtimenntun hér á Íslandi góða. „En ef þú ætlar að gera herraklippingar að sérsviði þínu er menntunin mjög takmörkuð. Það er eiginlega bara ein leið í boði fyrir hársnyrtifólk,“ segir hann og bætir við að um 20% af náminu snúist um herraklippingar en 80% hársnyrtingu kvenna.

Gunnar hefur því þurft að leita annarra leiða við að afla sér þekkingar og bæta hæfni sína. „Ég fer til Bandaríkjanna á námskeið, kynnist meiri rakarastemningu þar og sæki mér menntun þangað.“ Þar að auki er hann að miklu leyti sjálflærður, þ.e. hann hefur aflað sér þekkingar á netinu í gegnum námskeið vinsælla rakara en einnig myndbönd á YouTube.

Gunnar Malmquist hefur lagt mikið á sig til að verða …
Gunnar Malmquist hefur lagt mikið á sig til að verða eins sá færasti í rakarabransanum. Árni Sæberg

Vorum langt á eftir

Aðalsmerki Gunnars í herraklippingunum er svokallað „skinfade“. „Fade“ á við þegar hárið er nokkuð stutt ofan á hausnum en verður svo jafnt og þétt styttra þegar farið er niður með hliðum og að aftan. „Skinfade“ er það sama nema rakað er alveg niður að húðinni og ekkert skilið eftir þar sem hárið er styst.

Fáir hér á landi kunna að gera „skinfade“ betur en Gunnar Malmquist. „Þegar ég varð ástfanginn af náminu tók ég strax eftir því að það sem er að gerast úti í heimi, og þær klippingar sem eru vinsælar þar, var engan veginn komið til landsins. Ég var mjög heppinn að fá áhuga á þessu á þessum tíma því mér fannst við vera rosalega langt á eftir á þessu sviði. Við vorum enn þá bara í venjulegu herraklippingunum. „Bara einn [sentimetri stilltur á rakvélina] í hliðunum og stytta aðeins að ofan, kallinn minn.““

Svokölluð „eyja“ var vinsæl á þessum tíma. „Já, bara raka alveg upp að skiptingu,“ segir Gunnar sposkur.

Gunnar lagði áherslu á að læra það sem var í gangi úti í heimi. „Ég hugsaði: „Ég ætla að læra þetta. Ef ég læri þetta og verð góður í þessu fæ ég marga kúnna,“ og það hefur skilað sér, heldur betur.“

Ég spyr Gunnar út í samkomubannstímann, sem var erfiður fyrir margt hársnyrtifólk, er öllum stofum var lokað í nær sex vikur vegna kórónuveirunnar. „Á þeim tíma fannst mér þetta mjög erfitt. Mér fannst þetta svo ósanngjarnt, allt var á móti manni, maður gat ekki unnið og þetta var mikið tekjutap. En svo eftir á að hyggja er maður bara þakklátur fyrir þennan tíma. Maður fékk að kynnast því hvernig það er að hafa ekki vinnu og vera ekki mikilvægur á einhverjum ákveðnum stað. Maður gat tekið eitt skref til baka og andað.“

Þeir sem vilja fylgjast með Gunnari geta farið á vikingblendz.com eða fundið hann á Instagram undir nafninu Vikingblendz.

Nánar er rætt við Gunnar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »