Kúrfan svipuð og í byrjun mars

Frá fundinum í dag.
Frá fundinum í dag. Ljósmynd/Lögreglan

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir smitkúrfuna svipaða nú og í byrjun mars. Hann segir erfitt að tala um líkur á því að smitum haldi áfram að fjölga. 

Fram kom í máli Þórólfs á upplýsingafundi almannavarna í dag að það sé smekksatriði hvort talað sé um samfélagssmit eða hópsýkingu. Gripið hafi verið til aðgerða til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu veirunnar en það vekur áhyggjur að ekki sé hægt að tengja allar sýkingar saman. 

Þórólfur segir smitkúrfuna svipaða nú og hún var í byrjun mars og þess vegna sé tekið tiltölulega hart á því smiti sem greinst hefur. Hvernig málin þróast verður að koma í ljós en fólk þarf að vera duglegt að sinna persónulegum smitvörnum. 

Þórólfur segir að áfram þurfi að leggja áherslu á skimanir og sýnatöku innanlands. Síðan þarf að huga að því hvort breyta þurfi áherslum á landamærum. Þá segir Þórólfur það áhyggjuefni að nýgengi smita heldur áfram að hækka hér á landi og hann telur líklegt að Ísland lendi á rauðum lista hjá einhverjum Evrópuþjóðum. 

Grímunotkun, meðal annars í strætó, er í sífelldri endurskoðun að sögn Þórólfs. Málið verður skoðað þegar hausta fer og farþegum í strætó fjölgar við skólabyrjun. Alma D. Möller landlæknir segir að gefnar hafi verið út leiðbeiningar um grímunotkun, það sé alls ekki sama hvernig grímur fólk notar og hún hvetur fólk til að kynna sér leiðbeiningar til að hafa í huga þegar grímur eru keyptar. 

Funda með Lilju Alfreðsdóttur á morgun

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna, hvetur fólk til að vera skynsamt þegar kemur að viðburðum á borð við brúðkaup, fermingar, afmælisveislur og útfarir. Hann segir að enn hafi ekki verið ákveðið að herða reglur og því séu áfram 100 manna samkomutakmörk og skylda að tryggja tveggja metra fjarlægð milli ótengdra aðila. Það sé þó ljóst að ekki sé hægt að fylgja þeim reglum ef halda á fjölmenna einkaviðburði í heimahúsum. 

Þá segir Víðir að þríeykið eigi fund með menntamálaráðherra á morgun þar sem farið verður yfir skólahald í haust. Hann segir ekki tímabært að tala um hvernig skólastarf getur farið fram fyrr en að fundinum loknum.

mbl.is