ÍE aðstoðar aftur við landamæraskimun

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sendi heilbrigðisráðherra minnisblað í morgun varðandi áframhaldandi aðgerðir á landamærum og innanlands vegna kórónuveirufaraldursins. Hann leggur til að áfram verði skimað á landamærum en Íslensk erfðagreining hefur boðist til að aðstoða sýkla- og veirufræðideild Landspítalans við það.

Þetta kom fram í máli Þórólfs á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Þórólfur sagði að ekki væri ástæða til að slaka á skimunum á landamærum og það eigi að halda þeim áfram til að lágmarka áhættuna á því að veiran berist hingað til lands. Farþegar frá Fær­eyj­um, Græn­landi, Dan­mörku, Nor­egi, Finn­landi og Þýskalandi sleppa við skimun við landa­mær­in eins og staðan er núna en aðrir eru skimaðir.

Mikið álag hef­ur verið á sýkla- og veiru­fræðideild Land­spít­al­ans vegna sýna­töku und­an­farna daga en sýnafjöldi á landamærum hefur fjórum sinnum farið yfir 2.000 sýna mörkin.

Íslensk erfðagreining hefur boðist til að taka hluta þessara sýna til að létta á Landspítalanum og ég býst við að þessu boði verði tekið,“ sagði Þórólfur.

mbl.is