Vill að samið verði tafarlaust við lögreglumenn

Lögreglumenn við hús Ríkissáttasemjara í Borgartúni. Þeir hafa nú verið …
Lögreglumenn við hús Ríkissáttasemjara í Borgartúni. Þeir hafa nú verið samningslausir í 15 mánuði mbl.is/Júlíus

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir í frétt á vef sambandsins að semja verði við Landsamband lögreglumanna tafarlaust. Hún segir að ríkið eigi að sjá sóma sinn í því að semja við lögreglumenn og veita þeim sömu kjör og öðrum hefur verið veitt. Hlé var gert á viðræðum við ríkissáttasemjara vegna sumarleyfa en lögreglumenn hafa verið samninglausir síðan í apríl í fyrra.

Vegna sumarleyfa samninganefndar ríkisins hefur hlé verið gert á kjaraviðræðum við Landsamband lögreglumanna. Næsti fundur sem boðað hefur verið til verður haldinn 19. ágúst. Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, segir engin viðbrögð hafa fengist frá samninganefnd ríkisins við tillögum sambandsins um lausn í deilunni. Síðasti fundur í deilunni fór fram í lok júní.

Lögreglumenn eru eina aðildarfélag BSRB sem enn er samningslaust. Sonja Ýr minnir á að lögreglumenn séu framlínustétt sem undanfarið hafi ítrekað þurft að leggja eigin heilsu í hættu vegna kórónuveirunnar.

mbl.is