Andlát: Dóra S. Bjarnason

mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Dóra S. Bjarnason, prófessor emerita við Háskóla Íslands, er látin, 73 ára að aldri. Dóra fæddist 20. júlí 1947, foreldrar hennar voru Steinunn Ágústa Bjarnason gjaldkeri og Ingi Hákon Bjarnason efnaverkfræðingur.

Eftirlifandi sonur Dóru er Benedikt Hákon Bjarnason. Hann fæddist árið 1980 og er fatlaður. Árið 1996 sendi Dóra frá sér bókina Undir huliðshjálmi – Sagan af Benedikt, sem fjallaði um lífshlaup þeirra mæðgina.

Dóra lauk stúdentsprófi frá MR árið 1967, BA-prófi í félagsfræði frá Manchester-háskóla 1971 og MA-prófi í félagsfræði frá Keele-háskóla 1974. Þá lauk hún doktorsprófi frá Oslóarháskóla í fötlunarfræðum árið 2003.

Dóra S. Bjarnason.
Dóra S. Bjarnason.

Dóra var stundakennari við Kennaraháskóla Íslands 1971 til 1981 og lektor og síðan dósent í félagsfræði við sama skóla 1981 til 2004, prófessor við KHÍ, síðar menntavísindasvið Háskóla Íslands, frá 2004 og prófessor emerita frá 2014. Þá starfaði hún sem gistiprófessor við háskóla víða um heim og hélt fyrirlestra.

Rannsóknir Dóru voru einkum á sviði félagsfræðimenntunar, fötlunarfræði og skólastefnunnar skóla án aðgreiningar, sögu og afraksturs sérkennslu og jaðarsetningar fatlaðs fólks. Verk Dóru endurspegla reynslu þriggja kynslóða fatlaðra ungmenna af skóla og samfélagi. Þau áttu mikilvægan þátt í viðhorfsbreytingu til fatlaðs fólks og til þátttöku allra í samfélaginu. Dóra sagði við Morgunblaðið árið 2017 að hún hefði einkum fjallað um hvernig skólinn gæti mætt öllum nemendum og veitt þeim gæðamenntun, tryggt félagslegt réttlæti og virka þátttöku allra, bæði nemenda og starfsfólks.

Eftir Dóru liggur fjöldi fræðibóka og fræðigreina, á íslensku, ensku og fleiri tungumálum. Hún sinnti ritstjórn og var m.a. einn ritstjóra bókarinnar Skóli margbreytileikans – Menntun og manngildi í kjölfar Salamanca sem kom út árið 2017. Á síðasta ári sendi Dóra frá sér bókina Brot – Konur sem þorðu, sem fjallaði um lífshlaup þriggja kynslóða kvenna á tímabilinu 1867 til 2004.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »