Bylgjurnar bornar saman

Landspítali/Þorkell Þorkelsson

Vísindamenn frá Háskóla Íslands, embætti landlæknis og Landspítala stefna enn á að birta nýtt spálíkan vegna annarrar bylgju kórónuveirufaraldursins á föstudag. Þróun annarrar bylgju virðist viðráðanlegri, en nú þegar nítján dagar eru síðan fyrsta smit greindist eru virk smit 114 en þau voru 602 nítján dögum eftir fyrsta innanlandssmitið í mars.

Á vefnum covid.hi.is kemur fram að upphaf annarrar bylgju, 23. júlí, líkist að mörgu leyti upphafi fyrstu bylgjunnar; sem hófst 4. mars. 

Munur á þróun fyrstu og annarrar bylgju kórónuveirufaraldursins.
Munur á þróun fyrstu og annarrar bylgju kórónuveirufaraldursins. Kort/mbl.is

Takmörkun samkoma við 100 manns var innleidd á áttunda degi annarrar bylgju en á tólfta degi í fyrstu bylgju, sem er fjögurra daga munur. Þessi skjótu viðbrögð ásamt fyrrgildandi takmörkunum við 500 manns gætu haft áhrif á þróun faraldursins, kemur þar fram en eins og áður hefur komið fram greindust engin innanlandssmit í gær.

Ítrekað er að þrátt fyrir að núverandi bylgja virðist vera að renna sitt skeið verði þessi vika að minnsta kosti að líða áður en úrskurðað verður með eitthvað slíkt.

mbl.is