Engir biðlistar í klíníska brjóstaskoðun

Árlega greinast 210 konur með brjóstakrabbamein á Íslandi og er …
Árlega greinast 210 konur með brjóstakrabbamein á Íslandi og er það algengasta krabbamein sem greinist hjá konum hér á landi Ljósmynd/Krabbameinsfélagið

Tekist hefur að vinna niður biðlista sem hafði myndast eftir klínískum brjóstaskoðunum hjá brjóstamiðstöð Landspítalans. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Krabbameinsfélaginu.

Langur biðlisti hefur verið eftir svokölluðum sérskoðunum, sem fara fram í framhaldi af skimun þegar upp kemur grunur um krabbamein eða þegar konur hafa einkenni og er vísað til brjóstamiðstöðvar spítalans. Krabbameinsfélagið vakti athygli á biðlistanum í haust.

„Þetta er afar ánægjulegt og Landspítali á hrós skilið fyrir að tæma þennan biðlista. Nú er mikilvægt að tryggja að þessari stöðu verði haldið og biðlistinn myndist ekki aftur,“ er haft eftir Ágústi Inga Ágústsyni, sviðstjóra Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins, í tilkynningunni.

„Eins og um flesta sjúkdóma gildir hér að því fyrr sem gripið er inn í, því meiri líkur eru á lækningu. Það sé því afar mikilvægt að tryggja að ekki sé óþarfa bið eftir nauðsynlegum rannsóknum,“ segir Ágúst.

Einn karl móti hverjum 100 konum

Árlega greinast 210 konur með brjóstakrabbamein á Íslandi og er það algengasta krabbamein sem greinist hjá konum hér á landi. Meðalaldur við greiningu er um 62 ár, en um 10 konur greinast árlega undir fertugu.

Mun óalgengara er að karlar fái brjóstakrabbamein; aðeins einn karl á móti hverjum 100 konum. Horfur sjúklinga með brjóstakrabbamein hafa farið batnandi og í dag eru 5 ára lífshorfur um 90%.

„Okkur er mikið í mun að tryggja að árangur af starfi Krabbameinsfélagsins við skimanir fyrir krabbameinum hér á landi haldi áfram. Héðan í frá, sem hingað til er félagið málsvari þeirra sem greinast með krabbamein og við munum fylgja því eftir að sú þjónusta sem nauðsynleg er til að ná góðum árangri í baráttunni gegn krabbameinum sé í samræmi við það sem best gerist,“ er haft eftir Höllu Þorvaldsdóttur, framkvæmdastjóra Krabbameinsfélagsins.

mbl.is