Hugmyndin að göngu yfir landið kviknaði í sóttkví

Mæðgurnar Iðunn Bragadóttir og Þóra Dagný Stefánsdóttir á göngu sinni …
Mæðgurnar Iðunn Bragadóttir og Þóra Dagný Stefánsdóttir á göngu sinni þvert yfir landið. Ljósmynd/Aðsend

Mæðgurnar Iðunn Bragadóttir og Þóra Dagný Stefánsdóttir fengu þá hugmynd í vor að ganga hátt í 800 kílómetra þvert yfir landið. 

Mæðgurnar gengu alls 786 kílómetra á 32 göngudögum, frá Reykjanestá út á Font á Langanesi. 

Iðunn segir í samtali viðmbl.is að dagarnir hafi verið mislangir, allt frá 16 kílómetrum á dag upp í 40 kílómetra. „Þetta voru svona 7 tímar upp í 12 tíma á dag. Við hlógum einhvern tímann að því að þetta væri svona eins og venjulegur vinnudagur upp í vinnualkann,“ segir Iðunn. 

Leiðin sem Iðunn og Þóra gengu.
Leiðin sem Iðunn og Þóra gengu. Ljósmynd/Aðsend

Mæðgurnar gengu saman Jakobsstíginn frá Frakklandi til Spánar fyrir fimm árum síðan. 

„Mér finnst það svolítið merkilegt að vera tvítugur og labba með mömmu sinni yfir Ísland. Þegar hún var 15 ára fór hún með mér Jakobsstíginn á Spáni sem er 800 kílómetrar. Núna 5 árum síðar ákváðum við að labba þessa leið, sem er álíka löng,“ segir Iðunn. 

Iðunn segir hugmyndina hafa kviknað þegar Þóra Dagný var í sóttkví í vor. 

Ljósmynd/Aðsend

„Dóttir mín var í sóttkví í vetur, hún var í þessum Austurríkishóp sem kom heim, og hún ætlaði að vera á ferðalagi erlendis í ár en það datt auðvitað upp fyrir í vor svo hún spurði mig bara hvort ég vildi ekki labba með sér yfir Ísland. Það gafst ákveðið tækifæri fyrir þetta núna, ákvörðunin var svolítið tekin í ljósi aðstæðna,“ segir Iðunn. 

Iðunn segir ýmislegt hafa drifið á daga þeirra mæðgna á göngunni. 

Mæðgurnar gistu aðallega í skálum á ferð sinni.
Mæðgurnar gistu aðallega í skálum á ferð sinni. Ljósmynd/Aðsend

„Við lentum í svakalega fallegum og björtum dögum en svo lentum við líka í úrhellisrigningu og tveggja stiga hita, nánast slyddu bara. Það kom einn dagur á Gæsavatnaleiðinni þar sem var bara algjört skýfall og við þurfum að skipta þrisvar um alfatnað þann dag,“ segir Iðunn. 

„Auðvitað komu svona dagar, sérstaklega þegar við vorum að labba Gæsavatnaleiðina, að við urðum svolítið þreyttar og fórum að kýtast um það hver hafi eiginlega fengið þessa hugmynd,“ segir Iðunn hlægjandi. 

„Svo lentum við líka í köngulóabiti. Það eru til íslenskar hagaköngulær sem eru eitraðar og dóttir mín var bitin og bólgnaði öll á ökklanum. En við lentum sem betur fer ekki í neinu lúsmýi.“

Ljósmynd/Aðsend

Iðunn segir það hafa komið þeim á óvart hve mikið var um merktar gönguleiðir á leiðinni. Mæðgurnar gistu aðallega í skálum og á gistiheimilum þar sem það stóð til boða. Eiginmaður Iðunnar og faðir Þóru hjálpaði þær við að flytja mat og búnað á milli staða og var þeim innan handar í ferðinni. 

„Ætli við höfum ekki borðað svona 60 pakka af þurrmat og eitthvað eins og 90 orkustykki. Maðurinn minn kom með matarbirgðir fyrir okkur, svo við vorum ekki að ganga með 30 daga birgðir á bakinu,“ segir Iðunn. 

Ljósmynd/Aðsend

Iðunn segir það hafa tekið á andlega að ganga yfir Sprengisand. „Endalausar sandöldur og mikið rok. En það var svo algjörlega magnað að labba út á Langanes. Það kom okkur á óvart, það var svo gróið og fallegt,“ segir Iðunn. 

Iðunn segir það ómetanlegt að hafa fengið að upplifa þessa ferð með dóttur sinni. 

„Það er alveg magnað. Þetta verður svona ferð sem við munum minnast alla okkar lífstíð og ég er nokkuð viss um að hún eigi eftir að segja sínum börnum frá þessu seinna meir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert