Klósettferðin kostnaðarsöm

Anna Ármannsdóttir með innheimtubréf vegna klósettferðar í Skaftafelli. Ferðin kostaði …
Anna Ármannsdóttir með innheimtubréf vegna klósettferðar í Skaftafelli. Ferðin kostaði 2.032 krónur. mbl.is//Jón Sigurðsson

„Mér fannst þetta ofboðslega óréttlátt en um leið get ég ekki annað en hlegið að þessu. Það er hálffyndið að ríkisstjórnin skuli ætla að styrkja Íslendinga til að ferðast um landið en taki það svo svona til baka,“ segir Anna Lára Ármannsdóttir, eldri borgari á Blönduósi.

Anna keyrði hringinn um landið í júlí eins og svo margir. Þegar heim var komið beið hennar innheimtubréf vegna þjónustu sem hún vissi ekki að greiða þyrfti fyrir. „Ég fór upp að Skaftafelli til að fara á klósett. Við lögðum langt frá og þar sem systir mín er í hjólastól ákváðum við að fara ekki inn í þjóðgarðinn. Það var enginn að rukka mig á klósettinu og enginn kom að bílnum og rukkaði. Þegar ég kom heim beið mín hins vegar innheimtubréf vegna þess að ökutæki mitt hafi ekið inn á gjaldskylt svæði. Ég sá hvergi skilti eða hlið sem sagði að ég þyrfti að borga. Að sjálfsögðu hefði ekki verið neitt mál að borga fyrir að fara á klósettið,“ segir Anna Lára.

Hún var rukkuð um 750 krónur en þar sem gjalddagi var liðinn þegar Anna lauk hringferðinni hafði bæst við innheimtuviðvörun upp á 1.178 krónur og 100 krónur í tilkynningargjald auk fjögurra króna í vexti. Alls nam innheimtan því 2.032 krónum svo klósettferðin reyndist Önnu dýr.

„Ég hafði ekkert verið heima og er ekki með tölvu þannig að ég sá þetta bara þegar ég kom heim. Þetta var bréf frá Cato lögmönnum en kröfuhafi er Vatnajökulsþjóðgarður, sem reyndar er skráður til heimilis í Garðabæ. Ég borgaði þetta nú bara en mér finnst þetta satt að segja fyrir neðan allar hellur. Ætli ég hefði þurft að borga ef ég hefði lagt bílnum mínum niðri á þjóðvegi?“

Magnús Guðmundsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs, segir að svokölluð svæðisgjöld hafi verið innheimt í Skaftafelli í um þrjú ár. Notast er við sama kerfi og á Þingvöllum þar sem myndavélar nema númer á bílum. Ef fólk er lengur en 15-20 mínútur á svæðinu þarf það að greiða 750 krónur sem veitir aðgang í sólarhring. Ef fólk greiðir ekki í greiðsluvélum á svæðinu fær það rukkun í heimabanka.

„Það eru alltaf einhverjir sem eru óánægðir með gjaldið en við höfum verið mjög liðleg við fólk sem hefur haft samband. Vissulega skilur maður það að ekki eru allir búnir að venjast þessu fyrirkomulagi en þarna er verið að borga fyrir þjónustu sem fólk fær á svæðinu; aðgang að klósettum, fræðslugöngur og landverði sem alltaf eru til reiðu,“ segir Magnús. Hann bætir við að 800 þúsund gestir hafi komið í Skaftafell í fyrra og kvartanir hafi verið tiltölulega fáar. „Innheimta svæðisgjalda er aðferð sem er að ryðja sér til rúms og gerir okkur kleift að halda þessum stöðum í þokkalegu standi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »