Á 151 km hraða

Ljósmynd/Lögreglan

Nokkrir ökumenn hafa verið kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum á  undanförnum dögum. Sá sem hraðast ók mældist á 151 km hraða á Reykjanesbraut þar sem hámarkshraði er 90 km.

Fáeinir voru svo teknir úr umferð vegna gruns um vímuefnaakstur, þar á meðal einn sem var án ökuréttinda.

Þá leysti lögregla upp samkomu í bílskúr þar sem ummerki voru um fíkniefnaneyslu og þrír gesta undir lögaldri. Einn gestanna framvísaði kannabisefni. Haft var samband við forráðamenn þeirra sem voru undir lögaldri og tilkynning send til barnaverndarnefndar.

Enn fremur var tilkynnt um þjófnað á nokkrum pokum af dósum sem geymdir voru í porti við söluturn í Grindavík. Ekki er vitað hverjir voru þar að verki.

Skráningarnúmer voru svo fjarlægð af sex bifreiðum sem voru óskoðaðar eða ótryggðar að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.

mbl.is