Bárust tilkynningar um brot á samkomubanni

Lögregla að störfum.
Lögregla að störfum. mbl.is/Eggert

Nokkrar tilkynningar bárust lögreglu í dag um brot á samkomubanni og tveggja metra reglunni og kannaði lögregla aðstæður í þeim tilfellum.

Henni var einnig í dag tilkynnt um árekstur tveggja bifreiða í austurborginni. Þurfti dráttarbíl til að fjarlægja ökutæki af vettvangi og var sjúkrabifreið kölluð út vegna meiðsla sem urðu á fólki.

Þjófnaður í stórverslun og ölvun við akstur

Tilkynnt var líka um karlmann sem hafði fallið af hlaupahjóli og hlotið áverka. Lögregla og sjúkralið fóru á vettvang, að því er segir í tilkynningu frá lögreglu.

Í stórverslun í Garðabæ hafi verið tilkynnt um konu sem staðin var við þjófnað. Í Hafnarfirði var ökumaður stöðvaður og kærður fyrir ölvun við akstur.

mbl.is