Kólnar tilfinnanlega eftir helgi

Hlýindin sem hafa verið eystra halda áfram en í dag …
Hlýindin sem hafa verið eystra halda áfram en í dag verður hitinn líklega mestur á Héraði, um 22 til 23 stig. Vestan til á landinu fer hann þó væntanlega ekki langt yfir 15 stig. mbl.is/Hari

Næstu daga er útlit fyrir að vinda lægi nokkuð og vætutíðinni sem verið hefur undanfarið sloti. „Þeim austlendingum sem gott þykir að vera í hita skyldu njóta hans til hins ýtrasta á meðan færi gefst, vegna þess að á þriðjudaginn er útlit fyrir að norðaustanátt komi í stað þeirrar suðvestlægu og við það kólnar tilfinnanlega, sérstaklega um austanvert landið,“ að sögn veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Í dag er spáð suðvestanátt, og má búast við að hún verði allhvöss víða norðan til á landinu sem og á Suðausturlandi austan Öræfa. Á þessum svæðum eru líkur á hviðum yfir 25 m/s og ættu þeir sem eru á ferðinni með tjaldvagna eða fellihýsi hafa varann á.

Þykknar upp síðdegis

„Suðvestan til og á Austurlandi er öllu hægari vindur og meinlaus. Víðast hvar skín sól í heiði en þykknar upp um sunnanvert landið seint í dag. Hlýindin sem hafa verið eystra halda áfram en í dag verður hitinn líklega mestur á Héraði, um 22 til 23 stig. Vestan til á landinu fer hann þó væntanlega ekki langt yfir 15 stig,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Gular viðvaranir eru í gildi á Ströndum og Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra og á Suðausturlandi. 

Suðvestan 8-15 m/s, en 3-8 suðvestan- og austanlands. Bjartviðri víðast hvar, en þykknar upp sunnan til að kvöldinu og lægir. Hiti 9 til 15 stig, en 15 til 22 um austanvert landið.

Á laugardag:
Suðlæg átt 5-10, rigning eða súld með köflum og hiti 10 til 16 stig um vestanvert landið, en hæg breytileg átt og léttskýjað eystra, og hiti 16 til 23 stig þar.

Á sunnudag:
Fremur hæg breytileg átt og yfirleitt bjart, en suðaustan 5-10 m/s og skýjað með köflum við suðvesturströndina. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast á Norðurlandi eystra.

Á mánudag:
Hæg breytileg átt, skýjað með köflum og þurrt að kalla, en bjartviðri norðaustan til. Hiti víða 12 til 19 stig, hlýjast á Austur- og Vesturlandi.

Á þriðjudag og miðvikudag:
Þykknar upp í norðaustlægri átt með lítils háttar vætu. Kólnar í veðri.

Á fimmtudag:
Útlit fyrir norðaustanátt. Skýjað austan til en bjart að vestanverðu og svalt í veðri, einkum norðan heiða.

mbl.is