Vonast eftir COVID-lausri helgi á skemmtistöðum

Tveggja metra reglan útskýrð af lögreglumönnum.
Tveggja metra reglan útskýrð af lögreglumönnum. Facebook-síða lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur farið á 33 staði til að kanna með ráðstafanir varðandi sóttvarnir og tveggja metra reglu síðastliðna tvo daga.

Alls voru 23 staðir með sín mál í mjög góðu ástandi. Þar af hafði áður verið veitt tiltal á fjórum stöðum, en brugðist hafði verið við þeim tilmælum og þeir staðir nú til fyrirmyndar.

Alls þurftu 10 staðir að gera úrbætur og bæta skipulagið fyrir aukna aðsókn á staðina. Nægilega fáir voru inni á stöðunum svo grípa mátti til tafarlausra ráðstafana til að bæta þar úr og því þurfti ekki að loka stöðunum. Starfsmönnum þessara staða voru sem fyrr veittar ráðleggingar um hvernig mætti gera betur og auka skipulagið. Lögregla hafði komið á tvo þessara staða áður og veitt þar tiltal en lítið virtist hafa verið að gert.

Lögregla heimsótti enga staði þar sem ráðstafanir voru með öllu óviðunandi. Það er gott og vonandi til marks um að eigendur og forsvarsmenn samkomustaða séu að axla ábyrgð á sóttvörnum sínum.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun viðhafa virkt eftirlit með samkomustöðum alla helgina. Meti lögregla aðstæður óviðunandi verður sektum beitt og stöðum lokað tímabundið ef tafarlausar ráðstafanir þykja ekki nægilegar. Vonandi geta allir notið COVID-lausrar helgar á samkomustöðum borgarinnar að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu..

mbl.is