Tóbakslaut og Líkaflöt

Guðmundur í sessi á Skúlahól, en nafnið á væntanlega rætur …
Guðmundur í sessi á Skúlahól, en nafnið á væntanlega rætur sínar að rekja til klausturtímans í Viðey. mbl.is/Sigurður Bogi

„Viðey er einstök á margan hátt og tvímælalaust ein af perlum Reykjavíkur. Óspillt náttúran hér er einstök, fuglalífið og flóran fjölbreytt og sagan við hvert fótmál. Það eykur lífsgæði borgarbúa að hafa aðgang að þessari perlu,“ segir Guðmundur Davíð Hermannsson hjá Borgarsögusafni. Þar á bæ er hann verkefnastjóri Viðeyjar og hefur með höndum skipulag á starfi þar.

Staður strauma og stefna

Siglingin á ferjubátnum Gesti þá 800 metra sem eru frá Skarfabakka í Sundahöfn í Reykjavík yfir sundið út í Viðey tekur aðeins þrjár mínútur. Er síðan sem komið sé í aðra veröld í eyjuna á sundunum bláu. Frá bryggju er hlaðinn stígur upp að Viðeyjarstofu og kirkjunni, en bæði þessi hús voru reist um miðbik 18. aldarinnar. Um aldir var Viðey einn af mektarstöðum landsins; þarna voru lögð á ráðin í málum lands og þjóðar og til staðarins lágu stefnur og straumar í mannlífi og menningu. Örnefnin Prentsmiðjuhóll, Kúmenbrekka, Tóbakslaut, Virkisfjara, Ábótasæti og Líkaflöt segja öll mikla sögu.

Viðeyjarstofa.
Viðeyjarstofa. mbl.is/Sigurður Bogi

Rétt hálf öld er þessa dagana síðan byrjað var að bjóða upp á skipulagðar ferðir út í Viðey. Þær mæltust strax vel fyrir og það hefur haldist alla tíð. Yfir sumarið er siglt á klukkutíma fresti úr Sundahöfn frá klukkan 10:15 alla daga vikunnar og síðasta ferð í land er klukkan 18:30. Veitingasala er í Viðeyjarstofu, markaðir stígar og skilti með skýrum merkingum eru um alla eyjuna.

„Undanfarin ár hafa um 25 þúsund manns heimsótt Viðey. Í ár verða gestirnir færri, en Íslendingar hafa þó verið nokkuð duglegir að heimsækja staðinn. Í sumar buðum við upp á leit að lækningajurtum, hjólreiðaferð, fjölskyldujóga og fleira sem var vel sótt. Það er líka tilvalið fyrir fólk að koma hingað á eigin vegum til dæmis í hjólatúr, í göngu eða til að grilla í fallegu útsýni,“ segir Guðmundur sem rómar staðinn á alla lund.

Jaðrakan og tjaldur

„Þegar horft er niður í fjöru sést æðarfuglinn en hann verpir víða í Viðey. Oft má sjá skarf blaka vængjunum á Bæjarskeri. Þegar gengið er upp í átt að Viðeyjarstofu sést gjarnan jaðrakan og tjaldur. Einnig má sjá sendling, hrossagauk, maríuerlu og spóa. Úti á Eiði er að finna kríuvarp en þar hef ég orðið var við bæði landsel og útsel. Þá vaxa alls 156 plöntutegundir í eyjunni sem er sem ævintýraveröld. Sögugöngur eða árleg tendrun Friðarsúlunnar; allt eru þetta viðburðir sem fram fara hér, á stað sem margir bera mjög sterkar taugar til,“ segir Guðmundur Viðeyingur. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »