Mælir ekki með því að fólk deili söngvatni

Rögnvaldur Ólafsson segir að það að deila söngvatni sé góður …
Rögnvaldur Ólafsson segir að það að deila söngvatni sé góður siður en ekki heppilegt í faraldri „eins og gefur augaleið“. Ljósmynd/Lögreglan

Göngur og réttir eru í þann mund að hefjast og sagði Rögnvaldur Ólafsson, aðal­varðstjóri hjá al­manna­varna­deild rík­is­lög­reglu­stjóra, mikilvægt að einstaklingsbundnar smitvarnir séu í hávegum hafðar í réttum þar sem það gæti verið mjög bagalegt fyrir bændur ef smit berist inn á bæi.

„Þau verk sem þarf að vinna á þessum bæjum taka sér ekki pásu,“ sagði Rögnvaldur á upplýsingafundi almannavarna í dag. Hann sagði mikla hagsmuni í húfi fyrir bændur en hliðvarsla verður að göngum og réttum og bara þeim hleypt inn sem eiga erindi í réttir. 

Einn smitvarnafulltrúi í hverri rétt

Þá mældi Rögnvaldur ekki með því að fólk deildi svokölluðu söngvatni, þ.e. sterku víni, og öðrum veigum í réttum þrátt fyrir að það væri almennt góður siður. Hann sagði slíkt ekki heppilegt í faraldri „eins og gefur augaleið“.

Rögnvaldur benti á að það væri eins í réttum og öðru, í ár þyrfti að framkvæma þær með öðrum hætti. Leiðbeiningar um það hvernig fólk eigi að bera sig að í göngum og réttum voru birtar fyrr í ágúst á vefsíðu Sambands íslenskra sveitafélaga. Þar er t.a.m. hnekkt á mikilvægi einstaklingsbundinna smitvarna og þrifa í fjallaskálum en í leiðbeiningunum er einnig kveðið á um að einn smitvarnafulltrúi skuli vera skipaður í hverri rétt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert