Uppsöfnuð smit verði 200 til 260 eftir 3 vikur

Spáin sem um ræðir er byggð á því að aðstæður …
Spáin sem um ræðir er byggð á því að aðstæður verði svipaðar en víða er skólastarf hafið eða að hefjast og því ljóst að aðstæður muni breytast, segir í greinargerðinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Eftir þrjár vikur er uppsafnaður fjöldi smita í annarri bylgju líklegur til að vera á bilinu 200 til 260 tilvik en gæti orðið allt að 350“, segir í greinargerð með spálíkani Háskóla Íslands um þróun faraldurs kórónuveiru hérlendis sem birt var í gær. 

Spáin bendir til þess að faraldurinn sé á niðurleið hérlendis ef aðstæður haldast óbreyttar. Spáin gerir ráð fyrir því að 1-6 smit muni greinast daglega næstu þrjár vikur. Fjöldi uppsafnaðra smita ræðst af því hversu vel takist til við að viðhalda sóttvörnum auk mögulegra áhrifa sem upphaf nýs skólaárs gæti haft á þróunina. 

Það er þó enn óljóst „hvort við séum á leiðinni upp í langa og stóra bylgju eða á toppnum á lítilli bylgju“, segir í greinargerðinni.

Þróun nýgreindra smita og uppsafnaður fjöldi smita á Íslandi: Spá …
Þróun nýgreindra smita og uppsafnaður fjöldi smita á Íslandi: Spá og raunverulegur fjöldi. Mynd/HÍ

Daglegur fjöldi smita líklega 1-6

Enginn er nú inniliggjandi á spítala vegna COVID-19 en vísindamennirnir telja ekki tímabært að spá fyrir um fjölda spítalainnlagna eins og staðan er núna. Ef gögn benda til hraðari vaxtar í spítalainnlögnum verður það þó gert en spáin verður uppfærð eftir viku. 

Vísindamenn frá Háskóla Íslands, Embætti Landlæknis og Landspítala unnu spálíkanið og telja þeir að næstu vikur sé líklegt að daglegur fjöldi nýgreindra smita verði á bilinu eitt til sex, en gætu orðið hátt í 13. Á því eru þó minni líkur. 

„Eins og hefur verið raunin bæði í vor og nú getur fjöldi nýgreindra smita sveiflast frá degi til dags. Stundum greinast fá eða engin smit og á öðrum dögum greinast fleiri en tíu“, segir í greinargerðinni. 

Nýgreind smit miðað við 14 daga á hverja 100.000 íbúa …
Nýgreind smit miðað við 14 daga á hverja 100.000 íbúa á Norðurlöndunum. Á myndinni hér að ofan má sjá hvernig nýgengi smita á Íslandi er mun hærra í lok mars og apríl samanborið við nýgengi smita á hinum Norðurlöndunum. Í byrjun ágústmánaðar virðist nýgengi smita aukast aftur á öllum Norðurlöndunum. Hafa skal í huga að mikil greiningarvirkni hefur áhrif á mat á nýgengi og á Íslandi er greiningarvirkni há samanborið við önnur lönd. Mynd/HÍ

Skólastarf gæti breytt aðstæðum

Spáin sem um ræðir er byggð á því að aðstæður verði svipaðar en víða er skólastarf hafið eða að hefjast og því ljóst að aðstæður muni breytast, segir í greinargerðinni. 

Af þeim sökum er erfitt að segja til um hvort vöxturinn haldist stöðugur til lengri tíma og óljóst er hvort við séum á leiðinni upp í langa og stóra bylgju eða á toppnum á lítilli bylgju. Spáin bendir þó til þess að faraldurinn sé á niðurleið ef aðstæður haldast óbreyttar.“

Í greinargerðinni kemur fram að skjót viðbrögð yfirvalda við auknum fjölda smita hérlendis í annarri bylgju gætu hafa haft áhrif á þróun faraldursins. 

„Takmörkun samkoma við 100 manns var innleidd á áttunda degi annarrar bylgju en á tólfta degi í fyrstu bylgju, sem er fjögurra daga munur. Þessi skjótu viðbrögð ásamt því að samkomur voru þá þegar takmarkaðar við 500 manns gætu hafa haft áhrif á þróun faraldursins.“

Uppfært 11:20: Áður stóð að því væri spáð að virk smit yrðu 200-260. Hið rétta er að því er spáð að uppsöfnuð smit í annarri bylgju verði 200-260 talsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert